Innlent

Enn dregur úr sjóránum á heimsvísu

Atli Ísleifsson skrifar
Athygli vekur að mikið hefur dregið úr sjóránum undan ströndum Sómalíu.
Athygli vekur að mikið hefur dregið úr sjóránum undan ströndum Sómalíu. Vísir/AFP
Fjöldi sjórána í heiminum heldur áfram að minnka og hefur þeim nú fækkað þrjú ár í röð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaviðskiptaráðsins, ICC.

Þrátt fyrir þessa  jákvæðu þróun þá finnast enn ákveðin hafsvæði þar sem skipum stafar sérstaklega mikil hætta af sjóræningjum. Flest sjórán eru framin á hafsvæðum í suðausturhluta Asíu þar sem fámennar klíkur vopnaðar hnífum og skotvopnum ryðjast um borð í skip og stela farmi og eldsneyti.

Í skýrslunni segir að alls hafi 178 sjórán verið skráð það sem af er ári, samanborið við 352 á sama tímabili í fyrra. Alls hafa þrír látist í sjóránum á fyrstu níu mánuðum ársins.

Athygli vekur að mikið hefur dregið úr sjóránum undan ströndum Sómalíu og hafa einungis tíu rán verið skráð á þeim slóðum það sem af er ári. Þó sé bent á að sómalskir sjóræningjar séu enn með um 40 sjómenn í gíslingu, en sumir þeirra hafa verið í haldi ræningjanna í á fimmta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×