Innlent

Þór segir skilið við Dögun

Atli Ísleifsson skrifar
Þór Saari sat á þingi fyrir Borgarahreyfinguna og síðar Hreyfinguna á árunum 2009 til 2013.
Þór Saari sat á þingi fyrir Borgarahreyfinguna og síðar Hreyfinguna á árunum 2009 til 2013. Vísir/GVA
Þór Saari, fyrrum þingmaður Hreyfingarinnar, segist ekki lengur eiga samleið með Dögun og hafi því ákveðið að segja sig úr flokknum.

Í tilkynningu frá Þór segir að í kjölfar landsfundar Dögunar nú um helgina og þróunar Dögunar sem stjórnmálaafls frá kosningunum 2013 sé ljóst að hann eigi ekki lengur samleið með Dögun og þeirri stefnu sem tekin hefur verið á nýliðnum landsfundi og aukalandsfundi Dögunar í nóvember 2013.

„Í Dögun er baráttuglatt og kjarkmikið fólk með hjartað á réttum stað og ég óska félögum mínum alls hins besta á þeirra vettvangi.

Íslenskt samfélag og íslenskt stjórnmálaumhverfi er í mjög flókinni og erfiðri stöðu sem nauðsynlegt er að komast úr sem fyrst. Lausn á þeirri stöðu þarf hins vegar að vera róttæk og afgerandi og hvorki Dögun né önnur hefðbundin stjórnmálaöfl innan Fjórflokksins eru fær um að leysa þann vanda.

Hvort og þá hvernig vandinn verður leystur er ekki gott að segja en augljóst er að sá rammi sem nú er utan um íslensk stjórnmál dugar ekki og löggjafarvaldið, þ.e. Alþingi og sú lýðræðisskipan sem við búum við eru úr sér gengin og í algeru öngstræti. Við búum einnig á miklum óvissutímum í efnahagsmálum og vandaðra langtíma lausna er einnig þörf þar.

Núverandi stjórnvöld hafa sýnt sig vera ófær um að gæta að almannahagsmunum og munu ekki leiða Ísland úr ógöngunum.

Öflugt andóf gegn núverandi ástandi er því eina leiðin til betra samfélags,“ segir í tilkynningunni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×