Innlent

Mengun á Akureyri: Rúta send eftir krökkum í vettvangsferð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vorhátíð í Lundarskóla í maí.
Frá vorhátíð í Lundarskóla í maí. Mynd/Lundarskóli
„Við erum með flotta nemendur sem bregðast vel við þessu. Margir þeirra fengu SMS frá Almannavörnum. Það eru allir að fylgjast með,“ segir Maríanna Ragnarsdóttir, aðstoðarskólastjóri í Lundarskóla á Akureyri.

Íbúum á Akureyri hefur veirð ráðlagt að halda sig innandyra í dag og loka gluggum vegna mengunar. Mengun óx jafnt og þétt í nótt. Var magn bennisteinsdíoxíðs í loftinu 4000 míkrógrömm á rúmmetra í morgun. Á heimasíðu Almannavarna kemur fram að þegar magnið fer yfir 2000 míkrógrömm á rúmmetra sé ráðlagt að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu.

Maríanna segir að nemendur í Lundarskóla sem öðrum skólum verði inni í dag. Þá hafi hópur nemenda verið í vettvangsferð er tilkynningin barst frá Almannavörnum. Brugðist var við um leið.

„Við vorum með hóp niðri á Minjasafni sem við sendum rútu eftir,“ segir Maríanna. Hún segist hafa fundið fyrir menguninni í morgun og fólk neðarlega í bænum sjái vafalítið mengunina.

450 nemendur á aldrinum sex til sextán ára eru í Lundarskóla. Maríanna segir að foreldrar hafi verið upplýstir um stöðu mála í tölvupósti auk þess sem tilkynning hafi verið birt á heimasíðu skólans.

„Við hvetjum fólk til að sækja börnin í skólann. Sérstaklega þau sem eru veik fyrir,“ segir Maríanna. Það sé svo á ábyrgð foreldranna hvort börnin verði sótt eða ekki.

Skólahald verður þess utan með óbreyttum hætti í dag nema skólasund fellur niður.


Tengdar fréttir

Mikil mengun á Akureyri

Íbúar á Akureyri hafa fengið varúðar sms um að halda sig innandyra í dag og loka gluggum vegna mengunar á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×