Innlent

Staðfesti lögbann við gjaldtöku við Geysi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Suðurlands staðfesti í dag lögbann við gjaldtöku af gestum sem heimsækja Geysissvæðið. Landeigendur vilja viðræður við ríkið um framtíð Geysissvæðisins og segja nauðsynlegt að allir landeigendur vinni að því saman.

Í tilkynningu frá Landeigendafélagi Geysis, sem Bjarni Karlsson formaður félagsins skrifar undir, segir að dómur héraðsdóms leysi þó ekki þann vanda sem málið hafi í raun snúist um. Það hvernig landeigendur geti unnið saman að uppbyggingu og verndun svæðisins.

Þar segir að ríkinu hafi verið boðin þátttaka í Landeigendafélaginu við stofnun þess en hafi ekki þáð það. Þá hafi ríkið ekki viljað hafa neitt samstarf við sameigendur en hafi þó frá stofnun félagsins verið upplýst um allar fyrirætlanir þess.

„Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að vernda svæðið og byggja upp aðstöðu sem tryggir öruggan aðgang ferðamanna og var gjaldtakan hugsuð til að mæta kostnaði við þær framkvæmdir. Uppbygging og verndun svæðisins til langframa er ómöguleg nema með samstarfi allra eigenda svæðisins. Ef það tekst ekki, tapar náttúran sem allir eru sammála að eigi að vernda. Bráðabirgðalausnir duga ekki til, lítill plástur er ekki settur á stórt svöðusár.“

Landeigendafélagið mun gefa sér tíma til að fara yfir dóminn og ákveða hvert framhaldið verður.

„Hvert sem svo það verður er ljóst að nú verður ríkið að hefja viðræður við okkur um framtíð Geysissvæðisins.“


Tengdar fréttir

Segir gjaldtökuna vel heppnaða

Umræðan um gjaldtökuna á Geysissvæðinu hefur verið mikil upp á síðkastið og ekki eru allir á eitt sáttir. Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, segir fyrstu daga gjaldtökunnar hafa gengið prýðilega.

Vísa í 120 ára dæmi um gjald við Geysi

Heimild til að innheimta gjald fyrir aðgang að Geysissvæðinu finnst í skjölum frá 1894 að sögn landeigenda. Þeir hafna lögbannskröfu ríkisins á gjaldheimtu af ferðamönnum. Ríkið bauðst til að fjármagna tugmilljóna uppbyggingu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×