„Utanríkisráðuneytið hefur enga aðkomu að þessu máli. Við höfum ekki haft neina milligöngu um neinar byssur,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
„Voru þeir þá að ljúga?“
„Það er einhver misskilningur hjá lögreglunni með þetta mál.“
„Finnst þér um einhverja stefnubreytingu að ræða ef þessum vélbyssum verður komið fyrir í lögreglubifreiðum?“
„Nei. Þetta er svo mikið rugl með þessa stefnubreytingu. Það er engin stefnubreyting. Lögreglan hefur alltaf haft aðgang að vopnum og ég skil því ekki alveg þegar fjölmiðlar eru að tala um einhverja stefnubreytingu.“
Gunnar segist mjög ánægður með að lögreglan skuli vera að endurnýja sín vopn.
„Mér finnst mikilvægt að lögreglan sé með aðgang að slíkum vopnum í því umhverfi sem hún er að starfa í dag.“

„Mér finnst margir hafa hlaupið á sig í þessari umræðu ef ég á að segja alveg eins og er. Sérstaklega þeir sem hafa haldið því fram að hér sé á ferðinni einhver ný stefna, einhverjar nýjar áherslur annað hvort hjá Landhelgisgæslunni eða lögreglunni. Það er ekkert slíkt á ferðinni. Staðreyndin er sú að í áratugi hafa verið til skotvopn bæði hjá Landhelgisgæslunni og hjá Ríkislögreglustjóra,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Landhelgisgæslan heyrir undir innanríkisráðuneytið sem kom þó ekki að vopnasamningnum.
„Innanríkisráðuneytið hefur enga formlega aðkomu að þessu máli og heldur ekki innanríkisráðherra. Á sínum tíma var ráðuneytið upplýst um það að það stæði til að endurnýja búnað hjá lögreglunni og það fæli ekki í sér kostnað fyrir löggæsluna. Það er upplýsingarnar sem innanríkisráðuneytið hefur haft,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.

„Finnst þér ekki að ríkt hafi leynd vegna þessa máls eða menn hafi verið tvísaga í upplýsingagjöf í þessu máli?“
„Ég held að menn hefðu átt að segja bara strax hvernig hlutirnir voru því það er ekkert óeðlilegt við þetta,“ segir Gunnar Bragi.
„Afhverju var það ekki gert?“
„Það hef ég ekki hugmynd um, þú verður að spyrja þessar stofnanir.“
„Finnst þér hafa verið tvísaga í þessu máli?“
„Mér finnst að þeir hefðu átt að svara skýrar um þetta mál, já.“