Innlent

Höfum fengið 310 hríðskotabyssur frá norska hernum frá 2011

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir / Getty

Landhelgisgæslan hefur þrívegis á síðustu árum fengið vopn að gjöf frá norska hernum. Ríkislögreglustjóri óskaði eftir vopnum á síðasta ári og var gæslan milliliður vegna afhendingu 150 MP5 hríðskotabyssa í upphafi árs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gæslan hefur sent frá sér.

Þar kemur fram að 50 MP5 hríðskotabyssur hafi verið afhentar Íslendingum árið 2011, tíu MP3 hríðskotabyssur árið 2013 og 250 MP5 byssur í febrúar 2014. Auk þessara byssa hefur gæslan fengið fimmtíu hjálma og fimmtíu vesti. Aðeins fyrstu 50 byssurnar sem komu til landsins hafa verið teknar til notkunar. Allar byssurnar eru geymdar í vopnageymslu Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því við norsk stjórnvöld að fá vopn árið 2013. Landhelgisgæslan hafði milligöngu um málið og áttu 150 byssur af þeim 250 sem komu til landsins í byrjun árs að fara til ríkislögreglustjóra, samkvæmt yfirlýsingu gæslunnar.

Í yfirlýsingunni segir að gjafir sem þessar hafa ekki boðist gæslunni nema á nokkurra áratuga fresti og byggist á góðu samstarfi gæslunnar við hernaðaryfirvöld nágrannaþjóðanna. Þá leyfi fjárhagsstaðan Landhelgisgæslunnar ekki endurnýjun vopna nema að þau séu fengin að gjöf.

Fullyrt er í yfirlýsingunni að ekki sé um að ræða öflugari vopn en verið hafa í vopnasafni gæslunnar fram að þessu. „Landhelgisgæslan telur þetta eðlilega framkvæmd og nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda lágmarksöryggisbúnaði og í fullu samræmi við gildandi lög, reglugerðir og verklagsreglur sem gilda um vopnaeign og vopnaburð Landhelgisgæslunnar og felur þar af leiðandi ekki í sér neina stefnubreytingu í þeim efnum,“ segir í yfirlýsingunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.