Einar Ásgeir Sæmundsen, fræðslufulltrúi Þingvalla var á gangi meðfram Flosagjá þegar hann heyrði einhver læti. Við nánari könnun kom í ljós að unglingspiltur hafði hoppað, nakinn ofan í gjánna.
Syllan sem pilturinn stökk af er í um 5-6 metra hæð frá vatninu sem er um þriggja gráðu heitt.
„Foreldrarnir sátu hér á klettasnösinni og hentu mikið gaman af þessu. Strákurinn stóð þarna niðri í grjóthrafli við vatnið og var eiginlega í miklu sjokki og var bara frosinn í öllum skilningi þess orðs, andlega og líkamlega. Foreldrarnir áttuðu sig eiginlega ekkert á því í hvaða hættu hann var og hvað honum var kalt.
Það þurfti að tala nokkuð hraustlega við þau til þess að þau áttuðu sig á því að hann væri í raunverulegri hættu. Eftir smástund þá hafði hann sig upp og náði að fikra sig upp á litla mosatá. Þá áttuðu þau sig á því að þetta væri kannski ekkert mjög sniðugt,“ segir Einar Ásgeir.

„Þetta var eiginlega hálf kindugt. Strákurinn var hálfkjökrandi þarna niðri og á meðan það ískraði í foreldrunum af hlátri. Þau hvöttu hann áfram og fannst hann bara vera helvítis aumingi. Hann var bara frosinn þarna niðri og ég þurfti virkilega að setja í hraungírinn til að fá þau til að átta sig á aðstæðum. Svo lét ég þau bara vita af því að Ísland er hættulegt land fyrir svona vissar tegundir af ferðamönnum,“ segir Einar.
„Og hvernig skildirðu svo við fólkið, var strákurinn orðinn hress?“
„Já, þau voru nú þokkalega hress þegar þau fóru en þó með skömmustusvip á andlitinu, það er ekki hægt að segja annað.“