Innlent

Gos hafið að nýju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Af vefmyndavél Mílu má glögglega sjá að gos er hafið að nýju í Holuhrauni um fimm kílómetra norðan Dyngjujökuls, á sama stað og gos hófst aðfaranótt föstudags.

Hægt er að horfa á beina útsendingu úr vefmyndavélinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Click here for an English version.

Þoku brá yfir vefmyndavél Mílu um kl 4:30 en þegar henni létti um 5:49 varð vaktmaður Mílu var við gosið. Líkt og sjá má á vefmyndavélinni, sem nálgast má hér að neðan, bregður þoku reglulega fyrir gossvæðið en veður á svæðinu er vont eins og víðast hvar á landinu.

Sjá myndband frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands neðst í fréttinni.

Gossins aðfaranótt föstudags varð vart rétt upp úr miðnætti en var að mestu lokið um þremur klukkustundum síðar.

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við Vísi að gosið sé á sama stað og aðfaranótt föstudags en virðist nokkuð minna bæði af myndum og mælum að dæma.

Martin Hensch, jarðskjálftafræðingur á vakt hjá Veðurstofunni, staðfestir í tilkynningu að gos sé hafið á sprungu í Holuhrauni. Staðsetning sé um það bil sú sama og í gosinu aðfaranótt föstudags.

Gosið virkar minna að hans sögn og nánast engin virkni birtist á jarðskjálftamælum að hans sögn.

Vísindamaður Veðurstofunnar, sem gistir ásamt fleiri vísindamönnum í Dreka í Drekagili, er á leiðinni á svæðið. Víðir segir viðbúnað minniháttar á meðan verið sé að átta sig á hlutunum.

Hér má fylgjast með beinni útsendingu úr vefmyndavél 2 hjá Mílu.


Uppfært 07:14

Samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarmiðstöð Almannavarna eru jarðvísindamenn á svæðinu. Þeir segja gosið vera minna og sprunguna styttri en á föstudaginn og einnig hafi sprungan teygt sig um fimm hundruð metra í norður. Hraun úr sprungunni rennur eingöngu til austurs.

Hreinn Beck hjá Mílu ber saman gosin tvö á myndinni en hafa verður í huga skekkju vegna birtuskilyrða.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.