Innlent

Bjartasti ofurmáni í 20 ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ofurmáninn sem geimfarinn birti á Twitter
Ofurmáninn sem geimfarinn birti á Twitter MYND/Oleg Artemyev
Rússneskur geimfari hefur birt magnaðar myndir af ofurmánanum sem heiðrar jarðarbúa í kvöld en sökum nálægðar tunglsins mun það virðast óvenju­lega stórt við sjón­deild­ar­hring­inn. Er því um að ræða stærsta fulla tungl ársins og búist er við því að máninn verði ekki jafn bjartur aftur næstu tuttugu árin.

Geimfarinn, Oleg Artemyev, birti myndirnar á Twitter-síðu sinni undir yfirskriftinni „tunglsetur ofurmánans“. Ofurmáninn sem sjá má í kvöld er annar ofurmáninn af þremur í sumar og jafnframt sá bjartasti. Samkvæmt Nasa er ofurmáninn um 14 prósent stærri og 30 prósent bjartari en þegar tunglið er fjærst jörðu.

Á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins má finna eftirfarandi klausu um ofurmánann:

Tunglið er lágt á lofti í ágúst og mun því virðast óvenju stórt við sjóndeildarhringinn. Það er hins vegar skynvilla. Prófaðu að beygja þig og horfa á tunglið á hvolfi þegar það er við sjóndeildarhringinn. Þá virðist það skreppa saman.

Síðustu misseri hafa stærstu fullu tungl ársins gjarnan verið kölluð „ofurmánar“, þótt það sé ekkert „ofur“ við tunglið þegar það er næst Jörðu. Eins og við segjum stundum er þetta eins og að kalla 16 tommu pizzu ofurpizzu í samanburði við 15 tommu pizzu.



Hér að neðan má sjá færslu Artemyevs.

MYND/Oleg Artemyev



Fleiri fréttir

Sjá meira


×