Innlent

Nefbrotinn eftir líkamsárás: „Þetta er alveg hrikalegt"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ívar leitar vitna að árásinni.
Ívar leitar vitna að árásinni. Mynd/Úr einkasafni
„Ég er nefbrotinn eftir þetta, enda var ég skallaður og kýldur í andlitið af miklu afli,“ segir Ívar Máni Garðarsson um árás sem hann varð fyrir aðfaranótt sunnudags. Ívar leitar vitna að árásinni, sem átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn 800 Bar á Selfossi.

„Ég sat í grárri Benz-bifreið, fyrir utan staðinn. Þá kemur að mér maður sem ég kannast við,“ útskýrir Ívar og bætir því við að hann þekki manninn, en vill ekki nafngreina hann. Ívar heldur áfram:

„Hann bað mig um að færa mig. Ég sat inni í bíl og hann vildi setjast þar en ekki að ég væri þar einnig. Ég sagðist ekki ætla að færa mig og þá byrjaði hann að hóta mér barsmíðum, sem mér fannst nú heldur langt gengið. Ég sagði honum að ef hann myndi ráðast á mig myndi ég bara hringja í lögregluna og kæra hann. Þá tók hann sig til og skallaði mig í framan. Ég nefbrotnaði við það. Síðan kemur hann almennilega inn í bílinn, tekur mig hálstaki og kýlir mig fast í andlitið. Ég hálf vankaðist við höggin og var í svaka „sjokki“ eftir að hann hafði nánast kæft mig.“

Skyrta Ívars var blóðug eftir árásina.Mynd/Úr einkasafni
Vinir Ívars ruku til og náðu í dyraverði staðarins og lögregluna. Árásarmaðurinn fór af vettvangi en Ívar sat eftir brotið nef og laskaður á andliti. „Þetta er alveg hrikalegt,“ segir Ívar. „Það er svolítið mikið af svona tielfnislausum árásum á djamminu. Mér finnst kominn tími til að fólk fari að hugsa sig aðeins um. Eins og þetta, ég er nefbrotinn útaf því að ég vildi ekki fara út úr bíl félaga míns. Svona gengur ekki lengur.“

Í upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi kemur fram að Ívar hafi strax verið mjög bólginn í andltinu eftir árásina og taldi læknir sem meðhöndlaði hann líklegt að um nefbrot væri að ræða og reyndist sá grunur á rökum reistur. Lögreglan segir að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins.

Ívar leitar nú vitna að árásinni og hyggst kæra árásarmanninn. Hann biður alla þá sem sáu árásina að hafa samband við sig eða lögregluna á Selfossi, sem fer með rannsókn málsins. Árásin átti sér stað um þrjúleytið og sat Ívar í grárri Benz-bifreið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×