Innlent

Beðið álits sérfræðinga umbrotum í Sólheimajökli

Heimir Már Pétursson skrifar
Björgunarsveitarmenn hafa vaktað sporðinn á Sólheimajökli í dag en jökulsporðurinn hefur risið mikið undanfarna daga og telja menn líkur á að það geti brotnað upp úr jöklinum. Umferð fólks um svæðið hefur verið takmörkuð.

Bílastæði sem er næst jökullóni við Sólheimajökul hefur verið lokað og fólki er ráðlagt frá því að fara að eða upp á neðsta hluta jökulsins. Talin er hætta á að það brotni upp úr jöklinum sem risið hefur um einn og hálfan metra á undanförnum dögum og leiðsögumenn hafa heyrt jökulinn bresta.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli ákváðu í gærkvöldi að lýsa yfir óvissustigi við Sólheimajökul. Í tilkynningu segir að undanfarnar vikur hafi aðstæður við sporð Sólheimajökuls breyst hratt. Sporður jökulsins gangi nú fram í jökullón og að undanförnu hafi jakar brotnað framanúr jökulsporðinum og fallið í lónið.

Guðmundur Ingi Ingason varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli segir að við það að jökullinn gangi fram í lónið lyftist sporður jökulsins og síðustu daga hafi fremsti hluti hans lyfst um 1,5 metra.

Fólk getur þó enn notið þess að skoða jökulinn en verður þá að fara eftir gönguslóða austanmeginn við hann. Óvissustig verði að minnsta kosti þangað til sérfræðingar séu búinir að kanna aðstæður.

Björgunarsveitin Víkverji í Vík var með tvo menn við jökulinn í dag til að leiðbeina fólki.

Guðmundur Ingi segir rétt að taka enga áhættu á meðan ekki sé búið að kanna málið frekar sem gert verði á næstu dögum.

Ef hann bresti sé aldrei að vita hvað gerist en hugsanlega skapði slíkt brot hættu á flóðbylgju í lóninu við jökulröndina.  




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×