Innlent

Skáklandsliðið tapaði fyrir Svíum

Atli Ísleifsson skrifar
Báðar íslensku sveitirnar hafa fjögur stig á mótinu.
Báðar íslensku sveitirnar hafa fjögur stig á mótinu. Vísir/Gunnar Björnsson
Íslenska liðið í opnum flokki tapaði fyrir liði Svíþjóðar með minnsta mun í fimmtu umferð Ólympíuskákmótsins í Tromsö fyrr í dag.

Hannes Hlífar, Hjörvar Steinn og Helgi Ólafsson gerðu jafntefli en Guðmundur Kjartansson tapaði. Kvennaliðið tapaði fyrir liði Venesúela með hálfum vinningi gegn þremur og hálfum þar sem Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir gerði jafntefli að aðrar töpuðu.

Í fréttatilkynningu frá Skáksambandinu segir að Aserar, Búlgarar og Serbar séu efstir með fullt hús stiga í opnum flokki. Aserar unnu Frakka, Búlgarar sigruðu Rúmena og Serbar lögðu Tékka að velli.  Þrettán þjóðir hafa sjö stig, þar á meðal Rússar og Kínverjar sem gerðu 2-2 jafntefli í dag sem og Norðmenn sem unnu Pólverja.

Kínverjar, Indónesar, Ungverjar, Rússar og Íranar eru efstir í kvennaflokki einnig með fullt hús stiga. Báðar íslensku sveitirnar hafa fjögur stig.

Íslenska liðið í opnum flokki mætir alþjóðlegri sveit blindra og sjónskertra í fimmtu umferð Ólympíuskákmótsins sem fram fer á morgun, miðvikudag. „Það er ánægjulegt að á Ólympíuskákmótinu skulu sérsveitir blindra/sjónskertra, heyrnarskertra og hreyfihamlaðra taka þátt. Það segir margt um slagorð skákarinnar - við erum ein fjölskylda. Allir geta geta tekið þátt! Stelpurnar mæta sveit Bangladess,“ segir í fréttatilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×