Innlent

Þrjár líkamsárásir í Reykjavík í nótt

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Róbert
Lögreglan hafði í nógu snúast í miðborg Reykjavíkur í nótt þar sem þrjár líkamsárásir komu upp. Einnig voru fjórir ökumenn teknir undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Klukkan rúmlega eitt í nótt var karl á þrítugsaldri handtekinn eftir að hann veittist að dyraverði á bar við Hverfisgötu.  Maðurinn mun hafa tekið vínflösku og ætlað að fara með hana út af staðnum en dyravörðurinn hugðist stöðva hann. Dyravörðurinn var með áverka eftir viðureign við manninn. Þegar sá handtekni var færður í fangaklefa fundust fíkniefni í fórum hans.

Þá var  karlmaður um þrítugt sleginn í rot á Tryggvagötu um klukkan hálf þrjú.  Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.  Vitað er hver árásarmaðurinn er, en hann var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að.

Um klukkan hálf fimm var svo var karlmaður á sextugsaldri sleginn í andlitið í Austurstræti.  Ekki er vitað hver árásarmaðurinn er,  hann var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að. Blæddi úr andliti mannsins eftir árásina og var honum ekið á slysadeild í lögreglubifreið.

Fjórir ökumenn voru teknir úr umferð ýmist ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna, þrír karlmenn og ein kona.

Veitingasvikarinn enn á ferð

Þá var karl á fimmtugsaldri handtekinn á veitingastað í Aðalstræti í gærkvöld.  Hann hafði pantað steik en neitaði svo að borga reikninginn. Þarna var sami maður á ferð og hefur verið handtekinn á hverjum degi, í hálfan mánuð,  fyrir þjófnaði og veitingasvik síðastliðinn hálfan mánuð.  Þessi maður er einnig ógnandi við starfsfólk sem hann svíkur í viðskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×