Innlent

Hættir ekki nema annað bjóðist

Bjarki Ármannsson skrifar
Stefán segir ekki víst að hann sé á förum frá lögreglunni.
Stefán segir ekki víst að hann sé á förum frá lögreglunni. Vísir/Stefán
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki víst að hann sé á leið frá lögreglunni þó svo hann hafi undanfarið sótt um bæði starf forstjóra Samgöngustofnunar og sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

„Ég veit ekki ennþá hver niðurstaðan verður,“ segir Stefán. „Það er fullt af góðum umsækjendum í þessum stöðum sem ég sótti um, þannig að það er ekki hægt að ganga frá neinu vísu í þeim efnum. En ég vona bara það besta.“

Þó skrifar hann í Twitter-færslu sem birtist í dag, og sjá má hér fyrir neðan, að „menn eigi ekki að festast í sínum stólum,“ aðspurður  hvort hann hafi fengið nóg af lögreglustjórastarfinu. Þýðir það ekki að hann vilji halda á brott, sama hvort hann hljóti aðra hvora stöðuna eða ekki?

„Jú, það má alveg skilja það þannig að ég telji að það sé tímabært að gera eitthvað annað,“ segir Stefán. „En ég hef ekkert í hendi þó ég hafi sótt um störfin og hef ekki í hyggju að hætta hér nema ég fái eitthvað annað. Það er svona nauðsynleg forsenda fyrir menn sem þurfa að borga reikninga, að menn hafi vinnu.“

Stefán segist hafa talað fyrir því að fólk í æðstu stjórnendastöðum ríkisins geti aðeins gengt stöðunum í ákveðinn tíma. Hann hefur nú sjálfur stýrt embætti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2007.

„Þannig að ég er í rauninni bara samkvæmur sjálfum mér í því,“ segir hann.

En hefur Stefán sótt um fleiri stöður en þessar tvær sem greint hefur verið frá?

„Ekki svo ég viti um,“ segir hann. „En er þetta ekki ágætt í bili? Það er nú ekki oft sem tvær svona góðar og áhugaverðar stöður opnast á sama tíma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×