Innlent

Ríkið greiðir tvær milljónir vegna uppsagnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húsakynni Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómurinn var kveðinn upp.
Húsakynni Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómurinn var kveðinn upp. VÍSIR/PJETUR
Íslenska ríkið þarf að greiða fyrrverandi ráðuneytisstjóra, og síðar erindreka Íslands á sviði alþjóðaheilbrigðismála, tvær milljónir króna vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans eftir hrun. RÚV greindi fyrst frá.

Davíð Á. Gunnarsson,  fyrrverandi ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, fær fyrrgreindar tvær milljónir króna í miskabætur vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans í upphafi árs 2009. Er það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur. Uppsögn Davíðs var hluti af niðurskurði eftir hrun og tók gildi samstundis en Davíð fékk greidd laun í eitt ár.

Davíð gegndi þá embætti sérstaks erindreki um alþjóða heilbrigðismál í utanríkisráðuneytinu og taldi hann að ætla mætti af uppsögninni að hún væri tilkomin vegna einhvers annars en niðurskurðar. Embætti hans í utanríkisráðuneytinu var lagt niður þann 1. febrúar 2009 og hafði hann fengið bréf þess efnis þremur dögum áður.

Reyndist honum erfitt að finna starf í kjölfar uppsagarinnar sökum hvernig a henni var staðið. Í dómnum segir að nánast hafi verið um að ræða fyrirvaralausa uppsögn og féllst dómarinn á kröfu Davíðs. Þá hafi ríkið ekki tilkynnt um ástæður hennar og honum ekki gefist ráðrúm til að sinna eðlilegum starfslokastörfum erlendis.

„Verður að telja að þessi framganga ráðherra hafi verið til þess fallin að valda stefnanda óþægindum og álitshnekki, umfram það sem óhjákvæmilega leiddi af þeirri íþyngjandi ákvörðun að leggja niður starf hans,“ segir í dómnum. „Var hún til þess fallin að veikja traust til stefnanda og kasta rýrð á orðstír hans, ekki síst á erlendum starfsvettvangi þar sem menn kunna að hafa haft aðrar forsendur til að skilja gangverk stjórnsýslunnar á Íslandi við þær aðstæður sem uppi voru í kjölfari efnahagshrunsins haustið 2008."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×