Innlent

Kennarasambandið segir jákvæðar áherslur í hvítbók menntamálaráðuneytis

Randver Kári Randversson skrifar
Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands.
Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands. Vísir/Daníel
Kennarasamband Íslands telur að margar jákvæðar áherslur séu að finna í hvítbók menntamálaráðuneytisins um stefnumótun í íslenskum menntamálum. Sumt þurfi þó

að skýra betur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.

Í hvítbók menntamálaráðuneytisins er sjónum beint að þeim stoðum menntakerfisins sem helst þurfi að styrkja. Bent er á leiðir sem séu til þess fallnar að veita nemendum þá menntun sem menntalögin 2008 og aðalnámskrár 2011 boða, og áherslur og aðgerðir eru rökstuddar með vísan í alþjóðlegan samanburð og rannsóknir í menntamálum.

Í tilkynningunni er bent á að nokkur atriði sem nefnd eru í hvítbókinni þurfi að skoða betur. Færni í læsi sé undirstaða þess að nemendur nái tökum á námi sínu og lykilforsenda virkrar samfélagsþátttöku og sé grunnurinn lagður strax í leikskóla. Brotthvarf úr námi sé samfélagslegt vandamál sem mikilvægt er að ráða bót á með samstarfi margra aðila. Lengi hafi verið talað um að efla þurfi starfsmenntun og binda kennarasamtökin vonir við að markmiðum fylgi efndir.

Innleiðing menntastefnunnar frá 2008 hafi að stórum hluta legið niðri vegna efnahagskreppunnar. Kennarasamtökin eru sammála um nauðsyn þess að nú þurfi að veita skýrari leiðsögn um framkvæmd og áherslur. Skólar þurfi fjármagn í samræmi við það meginmarkmið að öllum nemendum bjóðist innihaldsríkt og fjölbreytt nám við hæfi, list-, verk- og bóklegar greinar og skapandi kennsluhættir. Kennarastéttin þurfi einnig stuðning við þá sérfræðivinnu sem innleiðingin krefst. Ekki verði lengur vikist undan því að verja meiri fjármunum til stuðnings við nemendur.

Varast beri að meta gæði menntunar með einföldum mælikvörðum, því þar hafi margir þættir áhrif: Kennaramenntun, aðstæður kennarastéttarinnar til starfsþróunar og samfélagsleg staða hennar, námsaðstæður nemenda, starfsskilyrði skóla og framlög til menntamála.

Að lokum segir í tilkynningunni að kennarasamtökin muni að sjálfsögðu taka þátt í samstarfi við að útfæra þau markmið hvítbókar sem eru til hagsbóta fyrir menntun nemenda og samfélagið í heild. Það sé í samræmi við það hlutverk kennarastéttarinnar á öllum tímum að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda í menntamálum og framkvæmd skólastarfs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×