Innlent

Íslendingar á Filippseyjum misstu meðvitund

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slasaðir starfsmenn fluttir á sjúkrahús. Til hægri er Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Mannvits.
Slasaðir starfsmenn fluttir á sjúkrahús. Til hægri er Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Mannvits. Vísir/Biliranisland.com/GVA
„Maður prísar sig sælan að allir eru komnir til starfa og heilir út úr þessu. Það er ekki sjálfgefið,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Mannvits. Tveir Íslendingar misstu meðvitund við jarðborun vegna gasleka á fimmtudaginn í síðustu viku.

Filippeyski fréttamiðillinn Biliranisland gerir mikið úr atvikinu á síðu sinni þar sem fram kemur að alls hafi átta starfsmenn Biliran Geothermal, BGI, hafi slasast vegna lekans. Enginn þó alvarlega. RÚV greindi fyrst frá hér heima. Starfsmenn Mannvits eru að störfum ytra við verkfræðilausnir fyrir BGI en starfsmenn Jarðborana sjá um sjálfa borunina.

Eyjólfur Árni segir báða starfsmenn hafa mætt aftur til vinnu á föstudaginn. Annar þeirra sé síðan á heimleið en það tengist ekki slysinu á fimmtudaginn.

Farið yfir verklag

„Við höfum verið í sambandi við þá og fjölskyldur þeirra líka, eðlilega enda mennirnir langt í burtu. Við munum fara yfir verklagið á staðnum og komast að því hvað gerðist,“ segir Eyjólfur í samtali við Vísi. Um hefðbundna aðgerð hafi verið að ræða þar sem verið var að prófa borholuna og fá gufuna upp úr henni.

„Gasið sem kemur upp tekur allt súrefnið í umhverfinu. Menn þurfa súrefni og ef það er ekki til staðar þá líður yfir menn,“ segir Eyjólfur Árni. Mennirnir voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús ásamt kollegum sínum í hópi heimamanna. Þeir voru svo útskrifaðir degi síðar.

Fundað verður á föstudaginn hjá Mannvit og skoðað hvort verklagið sé ekki örugglega í lagi. Fyrri hvert verkefni er framkvæmd áhættumat og ákveðnu verklagi fylgt að sögn Eyjólfs.

„Það er grundvallaratriði að verklagi sé fylgt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×