Innlent

Skortur á húsnæði hefur áhrif á heilbrigðiskerfið

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Formaður Velferðarráðs segir húsnæðisskort á höfuðborgarsvæðinu vera farinn að hafa áhrif á heilbrigðiskerfið. Upp er komin alvarleg staða í búsetuúrræðum geðfatlaðra þar sem tugir eru á biðlistum og rými teppt. 

Velferðarráð samþykkti árið 2012 að kaupa 32 íbúðir fyrir geðfatlaða innan þriggja ára. Aðeins 13 hafa verið keyptar. Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs, segir vandamálið ekki peninga heldur skort á húsnæði.

Skortur á húsnæði er vissulega að hafa mikil áhrif á bæði heilbrigðiskerfið og allt félagslega kerfið. Skorturinn kemur verst niður á þeim sem eru verst staddir á húsnæðismarkaði, og það eru þeir sem eru veikastir“.

Björk segir ekki hægt að kaupa íbúðir fyrir geðfatlaða fyrr en húsnæði við hæfi verður byggt. 

„Þetta er hræðilegt ástand og ömurlegt til þess að hugsa að fólk sé fast inni á sjúkrastofnunum þegar það getur búið með stuðningi úti í samfélaginu. Það þarf að bregðast við og við erum að reyna það með því að sérnefna húsnæði sem að er í uppbyggingu inn í búsetukjarna og fjölga litlum íbúðum svo hægt sé að kaupa íbúðir í þetta verkefni,“ segir hún.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, er á öðru máli og segir vel mögulegt að bregðast strax við vandanum með því að breyta íbúðum sem eru nú þegar í eigu Félagsbústaða.

„Þetta gengur ekki lengur. Það á að vera flæði á milli sjúkrahússins, búsetukjarnanna og félagslegu íbúðanna, en nú hefur allt verið stopp og fólk situr fast. Eins og staðan er núna losna ekki pláss nema fólk falli frá. Það á auðvitað ekki að vera þannig,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×