Innlent

533 milljarða vantar í íslenska lífeyrissjóði

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Fjármálaeftirlitið kynnti í morgun skýrslu um stöðu íslenskra lífeyrissjóða árið 2013. Þar kemur fram að heildareignir lífeyrissjóðanna voru í árslok 2013 rúmlega 2.800 milljarðar króna eða 158% af vergri landsframleiðslu en hlutfallið hefur aldrei verið hærra. Áfallin tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna árið 2013 er neikvæð um 533 milljarða króna. Með áfallinni stöðu er átt við það hvort núverandi eignir standi undir því sem þegar er búið að lofa í formi lífeyris.

„Það er ekki hægt að segja annað en að staðan sé góð. Lífeyrissjóðskerfið er stórt og það er öflugt og ávöxtunin hefur batnað mjög á undanförnum tveimur árum“, segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna árið 2012 var 7,4% en fór í 5,6% árið 2013. Bæði vel yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði. En gefa þessar tölur rétta mynd af raunverulegri ávöxtun lífeyrissjóðanna?

„Nei, ég held og óttast að það að lífeyrissjóðirnir geti ekki fjárfest erlendis og þurfi að setja allt sitt mikla fé á beit innanlands geri það að verkum að hér hafi myndast eignabóla, til dæmis í hlutabréfum,” segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.  

Pétur segir halla á lífeyrissjóðskuldbindingum grafalvarlegt mál.

„Þar erum við núna komin upp í 530 milljarða sem að er ógreidd skuld. Hún hefur ekki verið færð í fjárlög eða fjáraukalög þannig að mínu mati er ekki raunveruleg ríkisábyrgð á þessum skuldbindingum. En þær eru um 1,8 milljón króna á hvern Íslending, litlu börnin meðtalin. Þetta eru um 4,5 milljónir á hvert heimili og 20 milljónir á hvern ríkisstarfsmann. Þannig að þetta eru gífurlegar upphæðir sem um er að ræða, sem ríkið skuldar opinberum starfsmönnum.“

„Þetta er mjög alvarlegt mál. Árið 2026, að mig minnir, þá verður b-deildin tóm og þá þarf að fara að borga þarna inn, ef menn ætla að standa við þessa skuldbindingu, svona 20-30 milljarða króna á ári. Ég minni á það að eitt stykki spítali kostar 80 milljarða, þannig að við þyrftum að setja sem svarar til eins spítala á fjögurra ára fresti“, segir Pétur Blöndal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×