Innlent

Ekki skortur á samkennd sem stjórnar hegðun fólks

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur
Afbrotafræðingur segir það alþekkt að fólk láti sér fátt um finnast þegar það verður vitni að átökum eða réttir fólki í neyð ekki fram hjálparhönd. Hann segir að ekki sé hægt að saka þetta fólk um skort á samkennd heldur ráði aðrir þættir þar meira máli.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og afbrotafræðingur segir að afskiptaleysi fólks við þær aðstæður sem Kristófer Már Maronsson lenti í í gær hafi ítrekað verið rannsakaðar.

„Stundum vitum við bara ekki alveg hvað er að gerast. Við viljum ekki tengjast atburðarrás sem gæti tafið okkur eða flækst inn í einhverja atburðarrás sem vitum ekki alveg hvert leiðir okkur. Þetta getur jafnvel verið þannig að við teljum þetta ógna okkur með einhverjum hætti,“ segir Helgi.

Ekki skortur á samkennda sem stjórnar hegðun fólks
Hann bætir því við að þesskonar hegðun sé algengari í stórborgum heldur en í fámennum samfélögum. Þá virki hjarðhegðunin í báðar áttir.

„Svo er það líka þannig að ef aðrir grípa ekki inn í þá eru mjög litlar líkur á að við höfum afskipti af atburðunum. En um leið og einhver tekur af skarið eru mjög miklar líkur á að við fylgjum á eftir og veitum viðkomandi aðstoð.“

Helgi segir það ekki svo að skortur á samkennd hjá fólki stjórni hegðun þeirra við þessar aðstæður.

„Nei, það er ekki um neitt slíkt að ræða. Þetta er eingöngu það hvað fylgir því að búa í stórborg í ópersónulegu borgarsamfélagi þar sem samskiptin eru við fjölmarga, oftast á mjög yfirborðskenndan hátt.“

En er Reykjavík orðin eins og hver önnur stórborg úti í heimi?

„Ekki eins og hver önnur stórborg en með mörg einkenni stórborga með kostum og göllum sem fylgja stórborgarlífi,“ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×