Innlent

Lögreglan heldur áfram að skrifa um gullfiskinn Nemó

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Frá leitinni á fimmtudaginn.
Frá leitinni á fimmtudaginn. Vísir/Arnþór
Blaðra sem fannst eftir umtalsverða leit Landhelgisgæslunnar í sjónum úti við Álftanes, var í eigu þriggja ára stúlku. Þetta kemur fram á Facebook-vef Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á fimmtudaginn voru lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningamenn og Landhelgisgæslan kölluð út á Álftanes eftir að þeim var tilkynnt að svifvængur (e. Paraglider) hefði farið í sjóinn. Eftir umtalsverða leit kom í ljós að þetta voru tvær helíumblöðrur með sólgleraugu bundin í þau sem fóru þarna í sjóinn.

Á Facebook-vef Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var fjallað um málið og sagt frá því að vindurinn hafi feykt blöðurunum út á haf. Aðeins tókst að bjarga annarri blöðrunni, sem var af tegundinni Hello Kitty, en blaðra með fiskinum fræga Nemó fór aftur í sjóinn. „Það má því með sanni segja að þetta hafi verið ein umfangsmesta leit sem gerð hefur verið af þessum sögufræga gullfiski og það sem meira er, Nemó er enn ófundinn,“ sagði á vef lögreglunnar.

Blaðran í eigu þriggja ára stúlku

Facebook-færslan á fimmtudaginn vakti mikla athygli. Lögreglan hefur nú upplýst um eiganda blöðrunnar og er það þriggja ára stúlka. Stúlkan sendi lögreglunni einlægt afsökunarbréf og mætti daginn eftir í lögreglustöðina í Hafnarfirði, ásamt móður sinni, með blómvönd. Um þetta var fjallað á Facebookvef lögreglunnar:

„Eigandi blaðranna var þriggja ára stúlka af Álftanesi. Hafði hún fengið Hello Kitty blöðruna á 17. júní sem hafði lifað góðu lífi fram á fimmtudag. Nemó blaðran hafði verið hengd á leiði systur hennar þennan sama dag. Í lok dagsins fannst fjölskyldunni tilvalið að sameina blöðrurnar og voru sólgleraugu þeirrar stuttu notuð til að halda þeim niðri.“

Vonandi er Nemó búinn að finna pabba sinn

„Það var svo á þessum örlagaríka fimmtudegi að svaladyrnar höfðu verið opnar og Kitty og Nemó stungu af og tóku flugið inn í sólarlagið. Fjölskyldan á Álftanesi fylgdist svo með björgunarliði streyma að úr öllum áttum en datt ekki til hugar að umstangið væri vegna strokuhjúanna. Ekki fyrr en móðirin sá myndina sem birt var hér á síðunni,“ segir ennfremur um málið í Facebook-færslunni.

Þar kemur einnig fram að lögreglan telji rannsókn málsins lokið:

„Lögregla lítur því hér með á að rannsókn málsins sé endanlega lokið. Hello Kitty er komin til síns heima og Nemó er vonandi loksins búinn að finna pabba sinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×