Innlent

"Fólk gleymir þessu ekki"

Birta Björnsdóttir skrifar
Ofbeldi gegn konum í Uttar Pradesh héraðinu á Indlandi hefur viðgengist lengi, en undanfarna daga og vikur hafa morð og hópnauðganir í héraðinu vakið heimsathygli og kynt undir reiði í garð yfirvalda fyrir aðgerðaleysi í málum sem þessum.

Fyrir um hálfum mánuði fundust tvær frænkur hengdar í tré eftir að hafa orðið fyrir hópnauðgun. Í gær fundust svo tvær konur sem fengið höfðu sömu útreið. Önnur þeirrra var 45 ára, hin 19 ára.

Þá hefur kona lagt fram kæru gegn fjórum lögreglumönnum í héraðinu, en hún segir mennina hafa nauðgað sér eftir að hún neitaði að greiða mút­ur til þess að tryggja það að eig­inmaður henn­ar yrði lát­inn laus úr haldi.

Voðaverkin hafa beint kastljósinu að stjórnvöldum í Uttar Pradesh, og máttlausum viðbrögðum lögregluyfirvalda þar á bæ, sem í stað þess að fordæma níðingskapinn og leita allra leiða til að uppræta hann hafa orðið uppvísir af af því að hylma yfir með gerendum og gera lítið úr ofbeldinu.

Uttar Pradesh héraðið hýsir fleiri íbúa en gjörvöll Brasilía, eða rúmlega 200  milljónir manna.

„Að koma fram við konur af virðingu og vernda þær ætti að vera forgangsmál hjá þeim 1,25 milljörðum manna sem byggja þetta landi," sagði Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, en hann tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um ódæðisverkin í gær á indverska þinginu.

„Öll þessi hörmulegu mál eiga að vekja okkur til umhugsunar og kalla á tafarlaus viðbrögð yfirvalda. Það er ekki hægt að bíða með það. Fólk gleymir þessu ekki," sagði forsætisráðherrann jafnframt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×