Innlent

Ráðuneyti fór ekki að lögum við skipun rektors Hólaskóla

Randver Kári Randversson skrifar
Hólaskóli - Háskólinn á Hólum.
Hólaskóli - Háskólinn á Hólum.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið fór ekki að lögum um búnaðarfræðslu þegar skipað var í embætti rektors Hólaskóla – Háskólans á Hólum í febrúar 2012. Þetta segir í áliti umboðsmanns Alþingis sem birtist í dag.

Einn umsækjenda leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir skipun í embætti rektors Hólaskóla. Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að umsögn háskólaráðs Hólaskóla um skipun í embætti rektors hefði fengið „sambærilega stöðu og umsagnir háskólaráðs þegar um er að ræða ráðningu rektors í öðrum opinberum háskólum“. Með því væri átt við að „ráðuneytið hefði ekki lagt sjálfstætt mat á umsóknir, umfram það að meta hvort umsóknir uppfylltu lögbundnar lágmarkskröfur um starfsgengi umsækjenda og aðrar auglýstar hæfniskröfur fyrir embætti rektors“. Athugun setts umboðsmanns var afmörkuð við það hvort þessi tilhögun hefði verið í samræmi við lög.

Settur umboðsmaður rakti forsögu 32. gr. laga nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, sem ákvörðunin byggðist á, og samspil ákvæðisins við 25. gr. sömu laga.Hann dró þá ályktun að ákvörðunarvald í málinu hefði verið hjá ráðherra og hann borið ábyrgð á skipun í embættið og allri meðferð málsins. Verkefni háskólaráðs hefði aftur á móti verið að vera lögbundinn umsagnaraðili en ráðherra hefði ekki verði bundinn af umsögn þess. Ráðherra hefði því borið að taka sjálfstæða ákvörðun um skipun í embættið út frá því hver var hæfasti umsækjandinn í ljósi þeirra málefnalegu og lögmætu sjónarmiða sem hann ákvað að leggja til grundvallar. Honum hefði bæði verið óheimilt að framselja ákvörðunarvaldið til háskólaráðs og að fallast á tillögu ráðsins án þess að leggja sjálfstætt mat á umsækjendur.

Niðurstaða setts umboðsmanns var því að sú tilhögun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðhafði við skipun í embætti rektors Hólaskóla hefði ekki verið í samræmi við 32. gr. laga nr. 57/1999. Mæltist hann til þess að ráðuneytið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×