Innlent

Skemmdarverk unnin á bíl björgunarsveitarmanns í útkalli

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Jóhann tók mynd af leiðslunum þegar hann gerði sér grein fyrir skemmdunu. Atvikið átti sér stað í Eyjafjarðarsveit um helgina.
Jóhann tók mynd af leiðslunum þegar hann gerði sér grein fyrir skemmdunu. Atvikið átti sér stað í Eyjafjarðarsveit um helgina.
„Það er alveg ótrúlegt lið á ferðinni. Ég hef ekki hugmynd um hvað er hægt að segja við svona,“ sagði Jóhann Jóhannesson, björgunarsveitarmaður, sem lenti í því um helgina að óprúttinn aðili fór inn í bíl hans og fíktaði í og klippti á leiðslur. „Ég skil bílinn eftir fyrir utan björgunarsveitarhúsið Dalborg í Eyjafjarðarsveit, ég er í burtu í rúman sólarhring og í millitíðinni er farið inn í bílinn. Það er eins og einhver hafi verið að reyna að tengja framhjá.“

Jóhann var að vonum ekki sáttur við atvikið, sérstaklega þótti honum sárt að vera nýkominn úr björgunarsveitarútkalli klukkan 4 um nótt og lenda í þessu. Málið er undarlegt í ljósi þess að engu var stolið. „Það er mjög skrýtið. Það voru til dæmis verkfæri fyrir tugi þúsunda í skottinu.“ Hann segir í samtali við Vísi ekki hafa hugmynd um hvers vegna í ósköpunum einhver myndi gera þetta, bíllinn sé ekki verðmætur, nema ef til vill fyrir eiganda. „Þetta er gömul Toyota Corolla.“

Jóhann tilkynnti þetta ekki til lögreglu þar sem hann gerði sér ekki grein fyrir því í fyrstu hvað hefði gerst. „Ég hélt að bíllinn væri bilaður og við renndum honum í gang. Svo þegar ég kom heim fór ég að skoða þetta betur og fattaði þá hvernig í þessu lá.“

Enginn liggur undir grun en fylgst var með bílastæðinu af starfsmanni tjaldsvæðis sem er nálægt björgunarhúsinu til rúmlega þrjú aðfaranótt 15. júní og hefur skemmdarvargurinn farið inn í bílinn eftir það.

Jóhann velti því fyrir sér hvort atvikið hefði átt að beinast að sér persónulega, þar sem engin ástæða virðist fyrir skemmdarverkunum, en enginn kemur upp í huga hans sem gæti átt sökótt við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×