Innlent

Salmann segir að tala þurfi samkynhneigða til

Stefán Ó. Jónsson skrifar

Konur geta verið höfuð fjölskyldunnar, þjófar ættu að missa hönd og samkynhneigða þarf að tala til. Þetta sagði Salmann Tamimi í samtali við Íslandi í dag sem sýnt var á Stöð 2 í gær.

Þar bar hann Íslendingum vel söguna, sagði Íslendinga vera gott fólk og að moskan sem hann vill sjá rísa hér á landi yrði fyrir alla, ekki einungis fyrir þá 1500 múslima sem búa hérlendis.

Salmann sagði mikilvægt að fá mosku í Reykjavík, núverandi húsnæði sé sprungið og aðgengi fyrir fatlaða sé ábótavant. „Aðalmálið er að hafa mosku miðsvæðis svo að allir sem vilja komast geti komist,“ sagði Salmann í samtali við Sindra Sindrason. Hann bætti við að þetta yrði eina moskan hér á landi enda sé ólíkt að söfnuður hans muni stækka svo hratt að þörf sé á fleiri.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort ónæði muni hljótast af bænakalli frá mínarettu moskunnar en Salmann sagði að sú verði ekki raunin. Söfnuðurinn hafi verið hér í fjórtán ár án þess að ónáða nágranna sína með bænakalli og það muni ekki koma til með að breytast. „Nema að þeir vilji hlusta á það,“ sagði Salmann.

Salmann segir grýtingar í Íslam heyra sögunni til.

Þegar talið barst að réttindum kvenna í trúarbrögðum hans sagði Salmann konuna í raun vera höfuð fjölskyldunnar, enda sé það hún sem elur upp börnin og ákveður hvað þau fái að borða. Bæði kynin hafi þó sín hlutverk og að titillinn „höfuð fjölskyldunnar“ sé í raun íþyngjandi, sérstaklega fyrir karlmenn sem þyrftu þá að „sjá um konuna frá A til Ö“. „Það er miklu betra að hún sjái um mig,“ sagði Salmann kankvís.

Ekki hægt að vera samkynhneigður múslimi
Salmann sagði að hann myndi ekki neita samkynhneigðum um hjónavígslu í söfnuði sínum þrátt fyrir að samkynhneigð sé álitin synd í Íslam, rétt eins og í öðrum trúarbrögðum. „Það er ekki mitt hlutverk að spyrjast fyrir,“ sagði hann og bætti við að giftingar séu með öðru sniði meðal múslima en kristinna enda fer engin eiginleg blessun fram í íslömskum hjónavígslum. Þrátt fyrir það sé ekki hægt að vera samkynhneigður múslimi, trúin leyfi það ekki. Samkynhneigðin sé þó ekki dauðsynd í Íslam eins og margir hafa haldið fram, múslimum er heldur ráðlagt í Kóraninum „að tala samkynhneigða til“ og vísa þeim rétta leið.

Salmann er einnig þeirrar skoðunar að þjófar ættu að missa höndina fyrir þjófnað, rétt eins og að morðingjar eigi að gjalda fyrir brot sín með lífi sínu, það er að segja „ef fjölskylda þess látna fyrirgefur þeim ekki.“ Hann telur þetta eðlilega löggjöf enda séu þessi skilyrði tíunduð í Kóraninum sem trú hans byggist á. Grýtingar á konum og samkynhneigðum heyri þó sögunni til, rétt eins og í öðrum trúarbrögðum sem reisa stoðir sínar á Gamla testamentinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.