Innlent

Eygló segir Seðlabankann hafa átt að bregðast fyrr við

Randver Kári Randversson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Vísir/GVA
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra telur nýjar reglur Seðlabankans, sem banna greiðslur iðgjalda til erlendra tryggingafélaga, fela í sér mismunun. Þetta kom fram í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. „Ég hefði talið að Seðlabankinn hefði átt að bregðast fyrr við þessu. Þetta er eitthvað sem ég hef haft áhyggjur af. Ég veit að fleiri inn á þingi hafa verið að skoða þetta. Þetta var skoðað sérstaklega í tengslum við frumvarpið varðandi séreignarsparnaðinn. Þarna er verið að mismuna íslenskum og erlendum lífeyrissjóðum, sem eru að taka við lífeyrissparnaði hjá fólki.“

Eygló segir það þó vera hlutverk Seðlabankans að fara með þær reglur sem snúa að gjaldeyrishöftum og tryggja að þau haldi. Gjaldeyrishöftin séu því miður ennþá nauðsynleg en þau séu ósanngjörn og bitni á öllu samfélaginu. „Ég tel að það sé ekki sanngjarnt gagnvart einum né neinum sem eru hér starfandi á Íslandi að við séum með gjaldeyrishöft. En hins vegar er bara staðan þannig að við neyddumst til að setja þessi höft á, og aðstæður hafa ekki breyst þannig að við getum afnumið höftin. Þetta er mjög ósanngjarnt gagnvart íslensku samfélagi að við sitjum uppi með þessi höft. “

Eygló hefur áhyggjur af hugsanlegri bólumyndun á íslenskum fasteignamarkaði og í hagkerfinu öllu. „Þetta er afleiðingin, meðal annars, af því að við erum í lokuðu hagkerfi, að við erum með gjaldeyrishöft. Við erum hér með sjóði, lífeyrissjóðina okkar, sem eru að taka við gífurlegum fjármunum í hverjum einasta mánuði, sem þeir þurfa að setja inn í fjárfestingar. Síðan eru þeir með aðra fjármuni sem þeir þurfa að endurfjárfesta. Þetta er uppskriftin að því að búa til bólur, og þá er ég ekki bara að tala um fasteignamarkaðinn, ég er tala um öll þau verðmæti sem geta orðið til hérna í samfélaginu.“

„Við erum búin að vera á samdráttarskeiði og það er ekkert óeðlilegt við það að fasteignaverð leiðrétti sig eftir svona samdráttarskeið. Spurningin er hins vegar alltaf á hvaða tímapunkti erum við að snúa við og fara yfir í hagvaxtarskeið. Það eru núna spár sem liggja fyrir og segja það að við séum í rauninni að stefna inn í töluvert mikinn hagvöxt,“ segir Eygló.

„Þá þurfum við að gæta að því að blaðran blási ekki of mikið út“, segir Eygló að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×