Innlent

Slæmt aðgengi fyrir fatlaða kemur í veg fyrir að Freyja fagni með femínistum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ekki geta allir fagnað á Hallveigarstöðum í dag.
Ekki geta allir fagnað á Hallveigarstöðum í dag.
Freyja Haraldsdóttir getur ekki tekið þátt í hátíðardagskrá Kvennréttindafélags Íslands, í tilefni kvenréttindadagsins. Hátíðin fer fram í húsnæði Kvenréttindafélagsins, að Hallveigarstöðum, og er aðgengi fyrir fatlaða ekki gott þar. Engin lyfta er fyrir hjólastóla og hátíðin fer fram í kjallara hússins, því getur Freyja ekki verið með í dag.

„Mér finnst frekar erfitt að tala um þetta,“ segir Freyja sem segir að þarna rekist á tveir pólar í hennar lífssýn. „Ég er þakklát baráttu femínista en um leið er rosalega skrýtið að vera kona sem tilheyrir ekki þeim hópi. Það er skrýtið og flókið að geta ekki verið fötluð og verið kona á sama tíma.“

Freyja útskýrir orð sín þannig: „Fyrir mig sem konu er mikilvægt að geta barist fyrir jafnrétti kynjanna. Það er partur af minni sjálfsmynd. Mér finnst flókið að skilja að fötlun mín trufli mig í að taka þátt í þeirri baráttu. Það skerðir lífsgæði manns að geta ekki tekið þátt í þessu starfi.“

Til stendur að bæta aðgengið

Steinunn Stefánsdóttir er formaður Kvenréttindafélags Íslands. Hún segir leiðinlegt að aðgengi fyrir fatlaða sé ekki betra í húsinu, til stendur að bæta það, með nýrri lyftu fyrir hjólastóla sem verður komin upp fyrir næsta kvennadag, en þá verða 100 ár liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt.

„Lyftan er á framkvæmdaáætlun ársins. Hún mun kosta um tvær milljónir og hefði verið komin upp ef álagning fasteignagjalda hefði ekki breyst. Þau hækkuðu um milljón og við höfðum því ekki fjármagn til þess að festa kaup á svona lyftu,“ segir Steinunn. Hún segir Kvenréttindafélagið ekki taka lán fyrir þeim framkvæmdum sem þurfi að gera. „Reksturinn á húsinu er svona í anda hinnar hagsýnu húsmóður, við stofnum aldrei til skulda.“

Vilja halda Hallveigarstöðum á lofti

Rætt hefur verið um að hátíðardagskrá Kvenréttindafélagsins fari ekki farm á Hallveigarstöðum, á meðan aðgengi fyrir fatlaða er ábótavant. En Steinunn segir félagið vilja halda heiðri hússins á lofti. „Hallveigarstaðir eru kvennaheimili. Þrenn samtök kvenna eiga húsið – þetta er eina húsið í Reykjavík sem er í eigu kvenna.“

Hún segir að lengi hafi staðið til að bæta aðgengi fyrir fatlaða. „Umræðan um að bæta aðgengi fyrir fatlaða var hafin áður en gagnrýnisraddirnar fóru að hefjast. Auðvitað má segja að það sé sneipulegt að við höfum ekki kippt þessu í liðinn áður en raddirnar fóru að heyrast. En svona hlutir, eins og kaup á lyftu, gerast ekki bara einn tveir og þrír. Fyrst þegar umræðan hófst fór tími í að velta fyrir sér hvernig lyftu átti að fá. Nú erum við komin á þá lausn að kaupa einfalda hjólastólalyftu og það er komið á framkvæmdaráætlun ársins.“

Láta í sér heyra í fimmtánda sinn

Freyja segist þakklát fyrir að hjólastólalyfta verði komin í húsið fyrir næsta kvennadag. „En um leið er hægt að benda á að þetta er fimmtándi viðburðurinn sem haldinn er í húsinu eins og það er. Og við höfum alltaf látið í okkur heyra.“ Freyja á erfitt með að skilja af hverju aðgengið er ekki orðið betra nú þegar. „Fatlað fólk hefur verið lengi til. En maður reynir að horfa á þetta jákvæðum augum; horfa fram á veginn.“

Hún segir að það sé erfitt að láta í sér heyra vegna málsins. „Maður vill árangur í jafnréttisbaráttunni. En maður hefur á tilfinningunni að maður sé svolítið að spilal stemningunni með að benda á þetta slæma aðgengi. Mér finnst mikilvægt að bæta það sem fyrst, því það er jafnréttisbaráttunni mikill hagur í að allir geti tekið þátt í baráttunni. Konur og karlar eru ekki einsleitur hópur. Konur geta til dæmis verið hinsegin, gangkynhneigðar, trans, fatlaðar eða hvað sem er. Það á ekki að útiloka neinn hóp frá jafnréttisbaráttunni og þess vegna þarf að bæta aðgengi fatlaðra á Hallveigarstöðum – svo allir geti tekið þátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×