Innlent

Skiptar skoðanir á nýjum kjarasamningum leikskólakennara

Bjarki Ármannsson skrifar
Haraldur Freyr Gíslason er formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur Freyr Gíslason er formaður Félags leikskólakennara. Vísir/Valli
Launamunur á leikskólakennurum og leiðbeinendum sem ekki hafa leikskólafræði að menntun mun aukast með nýjum kjarasamningum Félags leikskólakennara, sem kynntir eru félagsmönnum um þessar mundir. 

„Ég er menntaður grunnskólakennari en ég starfa sem deildarstjóri á leikskóla,“ segir Jónína Einarsdóttir, meðlimur í Félagi leikskólakennara. Samkvæmt hennar útreikningum munu laun hennar koma til með að hækka um 2,8 prósent með nýjum samningum. „Ef ég væri hins vegar menntaður leikskólakennari, og væri að starfa sem deildarstjóri væri ég að fá á bilinu 6,5 prósent hækkun upp í 12,5 prósent hækkun.“

Munurinn sé einnig mikill meðal menntaðra leikskólakennara og starfsmanna með aðra fagmenntun. Hún segir það mjög einkennilegt að munurinn á launahækkun hennar og þeirra sem hafa leikskólafræði að menntun sé svo mikill, í ljósi þess að hún sinni sömu störfum og þeir og hafi sama samningaaðila. 

„Ég er búin að lesa samninginn aftur og aftur í dag því ég var svo hissa á þessu,“ segir hún. „Mér finnst þetta bara út í hött. Ég er búin að tala við nokkra sem eru í sömu stöðu og ég og við sjáum öll það sama út úr þessu.“

Jónína segir að ástæðan fyrir þessum mun á hækkuninni sé klárlega lítil aðsókn í leikskólafræði undanfarin ár.

„Það er náttúrulega þannig að leikskólakennarar eru deyjandi stétt, það er málið. Þetta er núna fimm ára háskólanám með lélegum launum. Þannig að auðvitað skil ég að það þurfi að hækka launin en það er ekki hægt að láta okkur sem erum að halda uppi faglegu starfi innan leikskólanna sitja í súpunni.

Ég get ekki ímyndað mér annað, ef þeir ætla að standa föst á þessu, en að fagmenntuðu fólki innan leikskóla eigi eftir að fækka. Og nógu fáir eru þeir nú þegar.“

Verður að vera meiri launamunur

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir þetta gert með það í huga að þeir sem ætli að velja sér kennaranám, sjái frekar hag sinn í því að velja sér leikskólafræðin.

„Eins og samningar voru gat annað háskólamenntað fólk farið í störf leikskólakennara og fengið nánast sömu laun, það var ekki nema 2,8 prósent munur á þessum hópum,“ segir Haraldur. „Það er að leiða til þess, ásamt öðrum þáttum, að nemi á krossgötum sem er að velja sér nám á menntavísindasviði velur frekar hin skólastigin. Því hann átti þá alltaf kost á því að fara að vinna í leikskóla á nánast sömu launum.“

Haraldur segir að vegna þessa hafi samninganefndin talið að það væru rök fyrir því að það þyrfti að vera meiri launamunur á milli þessara hópa, til að halda kennslufræði leikskólans á lofti. Hann skilji þó reiði fólks vegna þessa atriðis og segir að verið sé að leita lausna til þess að koma til móts við þennan hóp.

„Við erum búin að semja um að 0,1 prósent af heildarlaunum sem vinnuveitandi greiðir, verði greitt í sérstakan sjóð. Við ætlum hugsanlega að bæta í þennan sjóð, þannig að það verði um það bil 0,35 prósent sem fari í hann. Þetta á að vera námsstyrkjasjóður fyrir þá leiðbeinendur sem starfa núna í leikskólunum til þess að sækja sér leikskólakennaramenntun.“



Hann bendir á að til sé námsleið í Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar þar sem hægt er að taka masters-nám í leikskólafræði á tveimur árum.

„Þá útskrifast þau með leyfisbréf til kennslu á leikskólakennarastigi og munu þá bara starfa sem leikskólakennarar. Við eigum eftir að útfæra þetta en þetta er hugmyndin.

Þetta viljum við gera fyrir þetta fólk og til að leggja okkar á vogarskálarnar til að fjölga leikskólakennurum. Það er það allra brýnasta.“ 


Tengdar fréttir

Leikskólakennarar greiða atkvæði um vinnustöðvun

„Ef við bíðum lengur erum við í raun að samþykkja baráttulaust að verða samningslaus fram á haust. Ástæðan er augljós. Það verða engin tækifæri til að beita þvingandi aðgerðum þegar að allir eru í sumarfríi.“

Engin lausn í sjónmáli í kjaradeilum

Samningafundum flugvirkja og leikskólakennara var slitið á fimmta tímanum í dag, án árangurs. Vinnustöðvanir eru boðaðar 19. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×