Innlent

Fjallað verður um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/Vilhelm
Ráðstefnan „Hvar liggja möguleikarnir?“ fer fram í Hófi á Akureyri 4.-5. júní en hún fjallar um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Ráðstefnan er liður í viðburðum sem efnt er til í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014.

Fram kemur í tilkynningunni að íslenskt samfélag standi á næstu árum og áratugum frammi fyrir krefjandi verkefnum á sviði velferðarþjónustu.

Eldri borgurum muni fjölga verulega, nýir notendahópar koma fram á sjónarsviðið og kröfur til þjónustunnar taka á sig fjölbreyttari og víðtækari mynd.

Þetta kalli á sérhæfingu með aukinni samþættingu og góðri yfirsýn. Til þess að bregðast við þessum aðstæðum hafa stjórnvöld víða um lönd leitað leiða til nýsköpunar og skoðað á hvern hátt unnt sé í meira mæli að beita tæknilegum lausnum í velferðarþjónustunni.

Fram kemur í tilkynningunni frá Velferðarráðuneytinu að meginmarkmið ráðstefnunnar sé að skapa aðstæður og upplifun þar sem ráðstefnugestir komast í snertingu við það sem efst er á baugi í nýsköpun og tækni í velferðarþjónustunni.

Jafnframt að þeir geti öðlast vitneskju um hvar hægt sé að leita þekkingar og reynslu til að skapa árangursríkar lausnir í íslenskri velferðarþjónustu.

Á ráðstefnunni munu ráðherrar félags- og heilbrigðismála velta fyrir sér tækifærunum í velferðarþjónustunni og hvað þurfi til að nýta þau.

Ráðstefnugestir munu fá glöggar upplýsingar um helstu stefnur og strauma í nýsköpun og tækni á Norðurlöndunum og sérstök kynning verður á innleiðingu nýsköpunar og tækni í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×