Innlent

Beiðni um endurtalningu atkvæða hafnað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sex atkvæðum munaði á milli Brynjars Guðnasonar oddvita Pírata og Öddu Maríu Jóhannsdóttur þriðja manni Samfylkingarinnar, eða 0,8 prósentum.
Sex atkvæðum munaði á milli Brynjars Guðnasonar oddvita Pírata og Öddu Maríu Jóhannsdóttur þriðja manni Samfylkingarinnar, eða 0,8 prósentum.
Kjörstjórn Hafnarfjarðar mun hafna beiðni Pírata um endurtalningu atkvæða, eins og óskað var eftir.

Fundur kjörstjórnar hófst snemma í morgun. Fulltrúi kjörstjórnar hefur tilkynnt Pírötum að hægt verði að senda beiðni um endurtalningu atkvæða Samfylkingar og Pírata, en að kjörstjórn muni ekki samþykkja algjöra endurtalningu, samkvæmt Kjarnanum.Brynjar Guðnason, oddviti Pírata, staðfestir þetta í samtali við Vísi en vildi lítið tjá sig um málið að öðru leyti.

„Í raun hringdu þau áður en fundur hófst og tilkynntu það að þessu yrði hafnað. Fundurinn stendur nú yfir og ég bíð bara eftir úrskurði,“ segir Brynjar.

Sex atkvæðum munaði á milli Brynjars Guðnasonar oddvita Pírata og Öddu Maríu Jóhannsdóttur þriðja manni Samfylkingarinnar, eða 0,8 prósentum. Adda María náði inn sem síðasti sveitarstjórnarmaður, en  Brynjar sat eftir þrátt fyrir 6,7 prósenta fylgi.

Beiðninni var vísað til formanns kjörstjórnar síðastliðinn mánudag, sem kallaði til fundarins. Í samtali við Vísi fyrr í vikunni sagði hún að líklegt væri að beiðnin yrði samþykkt. „Án ábyrgðar finnst mér það líklegra heldur en hitt, en þetta er ekki bara mín ákvörðun heldur kjörstjórnarinnar í heild,“ sagði Jóna Ósk Guðjónsdóttir, formaður kjörstjórnar.

Niðurstöðu er að vænta síðar í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×