Innlent

Segja að hörmulegt ástand eigi þátt í því að fangar hafi reynt að taka líf sitt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Afstaða harmar málflutninga Páls Winkels.
Afstaða harmar málflutninga Páls Winkels.
Afstaða, hagsmunafélag fanga, harmar málflutning forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins í kvöldfréttum fréttastofu RÚV í gærkvöldi en þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gær að nýjar reglur í fangelsum landsins meina föngum að fara inn í klefa hjá öðrum.

„Reynslan hefur sýnt okkur að ofbeldi í fangelsum á sér stað þar sem eftirlit er lítið, það er að segja myndavélar ekki til staðar, og það er inni á klefum“ sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í kvöldfréttum RÚV í gær.

„Fangar hafa mikið aðgengi hver af öðrum yfir daginn, á setustofum, mötuneytum, vinnustöðum, námi, útivist og svo framvegis. En við teljum mjög mikilvægt að fangaklefinn sé griðastaður fangans, þar sem hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því að menn ryðjist inn á klefa og taki þar út muni eða gangi í skrokk á viðkomandi.“

Í yfirlýsingu Afstöðu kemur fram að útskýringar Páls Winkel, forstjóra stofnunarinnar, á skammarlega bágri sálgæsluþjónustu innan veggja fangelsa landsins séu fyrir neðan allar hellur.

„Við viljum ítreka fyrri fullyrðingar okkar þess efnis að enginn sálfræðingur starfi nú í fastri og fullri vinnu í fangelsum landsins við þá lágmarks heilbrigðisþjónustu sem sálgæsla svo sannarlega er. Hið hörmulega ástand í þessum málum hefur án nokkurs vafa átt sinn þátt í því að tveir fangar hafi reynt að taka sitt líf undanfarnar vikur. Ljóst er að ekki nokkurt faglegt eftirlit er með andlegu álagi og líðan þess frelsissvipta hópi fólks sem í umsjón og á ábyrgð Fangelsismálastofnunar afplánar sína dóma nú. Afstaða fordæmir harkalega þá hræðilegu skammsýni og metnaðarleysi þeirra sem alla ábyrgð bera, Fangelsismálastofnun ríkisins og forstjóra þess.“

Fram kemur í yfirlýsingunni að Afstaða undri sig á einstaklega ódýrum réttlætingum Páls á nýjum reglum sem banna föngum eðlilega og óþvingaða samveru inni á einkarýmum þeirra.

„Vill Afstaða auðmjúklega benda á að slíkar reglur eiga sér enga hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur svo gjarnan saman við. Það er ekki að ástæðulausu. Slíkar reglur eru einungis til þess fallnar að einangra fanga meira félagslega heldur en ella. Árið 2005 gáfu þrír sérfræðingar Fangelsismálastofnunar út skýrslu um sjálfsvíg í fangelsum það árið. Þar mæltu þeir eindregið á móti slíkri einangrun eins og nýju reglurnar mæla fyrir um.“

Þá er Afstöðu óskiljanlegt hvernig hinar nýju reglur geti mögulega komið í veg fyrir ofbeldi meðal fanga í ljósi þess að allar klefahurðir eru ólæsanlegar innanfrá.

„Ólíklegt verður að teljast að menn í ofbeldishug láti einhverjar umgengisreglur stöðva sig, ef sá gállinn er á þeim. Ef forstjóranum væri umhugað um öryggi sinna skjólstæðinga, þá væri honum í lófa lagið að setja upp slíkar læsingar, enda er það vel þekktur öryggisbúnaður í langflestum fangelsum norðurlanda. Sem betur fer heyrir ofbeldi meðal fanga inni á vistarverum þeirra til algjörra undantekninga.“

Páll Winkel sagði að traust yrði að ríkja á milli aðila svo af samstarfi geti orðið. Því er Afstaða hjartanlega sammála.

„Afstaða hvetur því Pál, sem hingað til hefur algjörlega hafnað öllum samskiptum og viðræðum við talsmenn fanga, til að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á og virða sjónarmið og ábendingar okkar. Það teljum við einu raunhæfu leiðina til að byggja upp á ný það traust sem stofnunin hefur undanfarin ár vanvirt og fótum troðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×