Innlent

Nýtt skipurit klínískra sviða Landspítalans kynnt

Randver Kári Randversson skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Vísir/GVA
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, kynnti í gær breytingar á skipuriti klínískra sviða spítalans, sem taka mun gildi 1. september næstkomandi. Þetta kemur fram á vef Landspítalans.

Tillagan var unnin í samráði við framkvæmdastjórn Landspítalans og hefur verið kynnt heilbrigðisráðherra. Fimm ár eru frá síðustu stóru breytingum á skipuriti Landspítalans. Breytingar þær sem kynntar eru nú lúta einvörðungu að klínískum sviðum spítalans.

Við tillögugerð voru fimm meginatriði lögð til grundvallar.

Í fyrsta lagi að breytingar séu unnar í almennri sátt við stjórnendur og trufli ekki viðkvæma starfsemi.

Í öðru lagi að meginþættir skipuritsbreytinga frá 2009 um aðkomu klínískra starfsmanna að yfirstjórn sjúkrahússins, framkvæmdstjóra með þríþætta ábyrgð og sem fæst sjórnunarlög haldi sér.

Í þriðja lagi er talin þörf á að jafna stærð klínískra sviða og draga úr stjórnunarspönn á stærsu sviðum.

Í fjórða lagi er mikilvægt að tala sérstaklega inn í þann vanda við flæði sjúklinga (aðflæði, fráflæði og flutningur innan spítalans) sem er ein af stærstu öryggis- og þjónustuógnum spítalans.

Í fimmta lagi er hugað að skipulagi þjónustu í nýjum meðferðar- og þjónustukjarna sem á að rísa á lóð Landspítalans. 

Enn á eftir að ákveða endanleg nöfn klínísku sviðanna og einnig á eftir að samræma nöfn einstakra starfseininga.

Þá er gert ráð fyrir að auglýsa störf sjö klínískra framkvæmdastjóra nú í júní sem taki til starfa 1. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×