Innlent

„Það má ekki bjóða mönnum í lax öðruvísi en að allt fari á hvolf“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Bjarni og Sigmundur verða viðstaddir opnun Norðurár á morgun.
Bjarni og Sigmundur verða viðstaddir opnun Norðurár á morgun.
Einar Sigfússon, umsjónarmaður Norðurár, er ósáttur við umræðuna um heimsókn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við opnun Norðurár í Borgarfirði á morgun. Hann er ánægður að ráðherrarnir séu tilbúnir að gefa sér tíma til að auka hróður laxveiði á Íslandi, grein sem hann segir hafa átt undir högg að sækja frá hruni.

„Það er mikið happ að fá þessa menn hingað. Ég skil ekki hvað fólki finnst athugavert að þeir komi hingað. Það má ekki bjóða mönnum í lax öðruvísi en að allt fari á hvolf. Við erum að reyna að vekja athygli á að laxveiði sé auðlind,“ segir Einar.

Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir að ráðherrarnir verði ekki lengi á staðnum. Þeir verði viðstaddir opnun árinnar en fari síðan í önnur verkefni. „Sigmundur Davíð er að fara upp í Borgarfjörð og ætlar að ræða við sveitarstjórnarmenn samhliða heimsókninni. Ætli hann kasti ekki einu sinni til tvisvar út í ána. Við vonum bara að það bíti á.“

Samkvæmt heimildum Vísis á Bjarni Benediktsson að vera staddur í Reykjavík klukkan níu í fyrramálið. Hann mun vera viðstaddur opnunina en heldur þaðan rakleiðis aftur í höfuðborgina. Hvorugur ráðherrann hyggst dvelja lengi á staðnum.

Einar þakkar ráðherrunum fyrir að taka vel í boð landeigenda við ána. Hann segir laxveiðisölu vera að taka við sér aftur, eftir samdrátt frá árinu 2008. „Við erum að koma úr erfiðu ári, 2012 var ekkert sérstaklega gott. En nú horfum við fram á betri tíma. Til dæmis er Norðurá uppbókuð í júní og júlí auk þess sem aðsóknin í ágúst er líka góð. Þannig að þetta lítur bara nokkuð vel út og við erum afar ánægð að fá þessa góðu gesti hingað á morgun,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×