Innlent

Ellefu-bar sýknaður af skaðabótakröfu

Randver Kári Randversson skrifar
Linda Mjöll ehf., sem rekur Ellefu-bar var sýknað af skaðabótakröfu vegna líkamstjóns.
Linda Mjöll ehf., sem rekur Ellefu-bar var sýknað af skaðabótakröfu vegna líkamstjóns. Vísir/GVA
Hæstiréttur sýknaði í dag félagið Lindu Mjöll ehf., og Vörð tryggingar af skaðabótakröfu manns sem varð fyrir árás dyravarða skemmtistaðarins Ellefu-bar árið 2009.

Í héraðsdómi voru Linda Mjöll ehf., Vörður tryggingar, og annar dyravarða skemmtistaðarins dæmd til að greiða manninum um 3,8 milljónir króna í skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir af völdum árásarinnar. Dyravörðurinn áfrýjaði ekki niðurstöðu héraðsdóms.

Málsatvik voru þau að í biðröð fyrir utan skemmtistaðinn rakst vinur stefnda í annan dyravarðanna og kom til smávægilegra stympinga milli þeirra. Kom þá til orðaskipta milli stefnda og dyravarðarins en ekki átaka. Þegar mennirnir sneru frá skemmtistaðnum og voru komnir nokkra spöl frá anddyri staðarins var stefndi tekinn hálstaki aftan frá, lagður í jörðina og við það missti hann meðvitund. Þá var sparkað í fótlegg hans eða hoppað á honum með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði mjög illa og var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús.  Stefndi hlaut varanlega 5% örorku vegna líkamstjónsins.

Hæstiréttur taldi að framferði dyravarðanna væri svo langt frá starfsskyldum þeirra að vinnuveitandi þeirra, Linda Mjöll ehf., geti ekki talist ábyrgur fyrir líkamstjóni mannsins. Jafnframt komst Hæstiréttur að því að þar sem sýnt þótti að dyraverðirnir hefðu valdið líkamstjóninu af ásetningi geti Vörður tryggingar ekki talist bótaskyldur samkvæmt skilmálum ábyrgðartryggingar vegna Lindu Mjallar ehf., vinnuveitanda dyravarðanna.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti var felldur niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×