Innlent

„Þetta skipulag mun auðsjáanlega rýra lífsgæði okkar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ylfa Dögg Árnadóttir og Eiríkur Kristinn Júlíusson. Ylfa Dögg hefur hafið undirskriftasöfnun til að mótmæla framkvæmdum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar milli Laugavegs og Grettisgötu.
Ylfa Dögg Árnadóttir og Eiríkur Kristinn Júlíusson. Ylfa Dögg hefur hafið undirskriftasöfnun til að mótmæla framkvæmdum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar milli Laugavegs og Grettisgötu. visir/vilhelm
Íbúar við Grettisgötu ætla efna til samstöðufundar í dag klukkan tvö undir yfirskriftinni „Stoppum framkvæmdir við Grettisgötu 17“.

Íbúarnir ætla að standa vörð um rúmlega hundrað ára gamlan silfurreyni á Grettisgötu 17 sem á að fella ef áætlanir um hótelbyggingu ná fram að ganga. Athugasemdir mótmælenda bárust í gríð og erg til fulltrúa borgaryfirvalda í síðustu viku og var þá ákveðið að fara yfir stöðu mála.

„Nú á að fella eldgamlan, stóran og tignarlegan silfurreyni sem stendur við Grettisgötu 17 og einnig færa húsið sem þar stendur en það er friðað og mun ólíklega þola að vera fært. Húsið á að færa þannig að það stendur alveg ofan í garðinum að Grettisgötu 13 og skyggir þar með á alla sólarglætu í garðinum,“ segir á vefsíðu samstöðuhópsins.

Þar kemur einnig fram að ofan á allt eigi að byggja hótel sem muni teygja sig frá Laugavegi og upp að Grettisgötu með tilheyrandi rútustoppum og óþægindum fyrir alla íbúa í nágrenni við reitinn.

„Einnig á að gera göngustíg að hótelinu frá Grettisgötu sem liggur alveg ofan í íbúum. Engin grenndarkynning var gerð áður en teikningar voru samþykktar en skipulagsbreytingarnar voru aðeins auglýstar í Fréttablaðinu og það á Þorláksmessu. Aðeins nýlega fréttum við nágrannarnir af þessu og margir fréttu að þessu fyrst í dag. Þetta skipulag mun auðsjáanlega rýra lífsgæði okkar.“

Vegna fyrirhugaðrar byggingar hótels við Laugaveg þarf að færa til húsið á Grettisgötu 17 og fella 106 ára gamalt silfurreynistré sem stendur á lóðinni, og íbúum við Grettisgötu þykir fallegt. Auk þess mun húsið skyggja á sólarljós á nærliggjandi lóð þegar það hefur verið fært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×