Innlent

Langan tíma tók að birta auglýsingu yfirkjörstjórnar Kópavogs

Sveinn Arnarsson skrifar
Auglýsing um framboðslista til sveitarstjórnarkosninga barst heldur seint.
Auglýsing um framboðslista til sveitarstjórnarkosninga barst heldur seint. Fréttablaðið/Pjetur
Kópavogsbær birti auglýsingu um samþykkta framboðslista til sveitarstjórnarkosninga níu dögum eftir að þeir voru samþykktir af yfirkjörstjórn Kópavogs.

Þegar Vísir hóf eftirgrennslan eftir auglýsingu frá Kópavogsbæ í morgun hafði engin auglýsing verið birt frá bænum þrátt fyrir fyrirmæli í lögum um sveitarstjórnarkosningar. Nú hefur Kópavogsbær birt auglýsingu um framboð. Auglýsingin birtist á vef Kópavogsbæjar eftir hádegi í dag, 20. maí.

Auglýsingin er samþykkt þann 11. maí af yfirkjörstjórn í Kópavogi. Hana skipa Snorri G. Tómasson formaður, Elfur Logadóttir og Una Björg Einarsdóttir.

Samkvæmt 32. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, segir að  „Þegar yfirkjörstjórn hefur úrskurðað framboðin gerir hún þau kunn almenningi með auglýsingu sem birt er á sama hátt og á hverjum stað er títt að birta opinberar auglýsingar.“

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogs, sagði í samtali við Vísi að handvömm sín hafi ollið því að tilkynning birtist ekki strax. „Auglýsingin mun birtast í bæjarblöðunum Kópavogspóstinum 22. maí, og Kópavogsblaðinu 24. maí. Hér hefur verið auglýst í bæjarblöðum fyrir kosningar, og það verður líka gert núna. Þar að auki eru auglýsingarnar birtar á vef Kópavogsbæjar, sem gert var í dag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×