Innlent

Kristín skipuð í háskólaráð Háskólans í Lúxemborg

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, hefur verið skipuð í háskólaráð Háskólans í Lúxemborg af þarlendum stjórnvöldum til næstu fimm ára.

Forseti háskólaráðsins er Marc Jaeger, forseti Evrópudómstólsins, en samtals skipa sjö einstaklingar ráðið. Meginverkefni ráðsins er stefnumótun og ábyrgð á fjármálum og rekstri háskólans.

Háskólinn í Lúxemborg var stofnaður árið 2003 og fagnaði 10 ára afmæli síðastliðið haust. Hann er eini háskólinn í hertogadæminu en þar búa samtals um 540 þúsund manns.

Háskólinn er í dag staðsettur á þremur stöðum í miðbæ Lúxemborgar en ný háskólalóð er í uppbyggingu í bænum Belval sem er í 18 km fjarlægð. Nú þegar er starfsemi á sviði lífvísinda flutt til Belval og ráðgert að flutningar annarra eininga hefjist 2015.

Kristín hefur áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir Háskólann í Lúxemborg. Í fyrra var hún beðin um að taka þátt í ráðningu nýs rektors skólans úr 80 umsækjendum. Rolf Tarrach, núverandi rektor, lætur af störfum í árslok og við tekur Rainer Klump, prófessor í hagfræði við Goethe-háskólann í Frankfurt í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×