Enski boltinn

Giggs og Louis van Gaal funda í Hollandi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Vísir/AP
BBC segir frá því í morgun að Ryan Giggs sé á leið til Hollands þar sem hann ætli að hitta Louis van Gaal í dag en enskir miðlar telja það nánast öruggt að Van Gaal setjist í stjórastólinn hjá Manchester United.

Ryan Giggs ætlar að hitta Louis van Gaal til að fara yfir sína stöðu hjá félaginu en líklegt þykir að van Gaal vilji hafa Giggs í þjálfaraliði sínu.

Ryan Giggs tók við liði Manchester United þegar David Moyes var rekinn í apríl en Giggs er ekki enn búinn að setja skóna sína upp á hillu og gæti einnig haldið áfram að spila næsta vetur.

Giggs verður ekki einn í för til Hollands en með honum verður varastjórnarformaðurinn Ed Woodward. Þeir munu hitta Louis van Gaal í æfingabúðum hollenska landsliðsins í Hoenderloo en þetta er hvíldardagur hjá Hollendingum.

Louis van Gaal er kominn á fullt í að undirbúa hollenska landsliðið fyrir HM í Brasilíu í sumar. BBC hefur heimildir fyrir því að Manchester United leggi nú ofurkapp að ganga frá stjóramálum sínum sem fyrst.


Tengdar fréttir

Bruce: Ég skal taka Giggs á frjálsri sölu

Fyrrverandi miðvörður Manchester United meira en til í að fá Ryan Giggs til Hull en telur hann hafa hlutverki að gegna á Old Trafford sama þótt Louis van Gaal taki við.

Giggs skipti sjálfum sér inn á völlinn - myndband

Ryan Giggs, starfandi knattspyrnustjóri Manchester United, lék væntanlega sinn síðasta leik fyrir félagið í kvöld þegar hann kom inn á sem varamaður í síðasta heimaleik tímabilsins á móti Hull í ensku úrvalsdeildinni.

Giggs gaf ekkert upp um framtíð sína í þakkarræðu eftir leik

Ryan Giggs stýrði Manchester United til 3-1 sigurs á Hull í kvöld í síðasta heimaleik liðsins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en það sem meira er hann skipti sjálfum sér inn á völlinn tuttugu mínútum fyrir leikslok í hugsanlega síðasta leik sínum í búningi United. Eftir leikinn hélt hann þakkaræðu á miðju vallarins alveg eins og Sir Alex Ferguson fyrir ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×