Enski boltinn

Giggs gaf ekkert upp um framtíð sína í þakkarræðu eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs átti stóran þátt í síðasta markinu sem Robin Van Persie skoraði.
Ryan Giggs átti stóran þátt í síðasta markinu sem Robin Van Persie skoraði. Vísir/Getty
Ryan Giggs stýrði Manchester United til 3-1 sigurs á Hull í kvöld í síðasta heimaleik liðsins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en það sem meira er hann skipti sjálfum sér inn á völlinn tuttugu mínútum fyrir leikslok í hugsanlega síðasta leik sínum í búningi United. Eftir leikinn hélt hann þakkaræðu á miðju vallarins alveg eins og Sir Alex Ferguson fyrir ári síðan.

„Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir stuðninginn á árinu frá öllum leikmönnunum og starfsfólkinu. Ég vil líka þakka Nemanja [Vidic] sérstaklega fyrir en hann er að yfirgefa okkur. Hann fer héðan með okkar bestu óskir um góðar stundir á komandi árum," sagði Ryan Giggs.

„Ég veit að þetta er búið að vera erfitt tímabil og öll velgengin undanfarin ár hefur vissulega spillt okkur. Þið hafið samt alltaf stutt við bakið á liðinu og starfmönnum þess og ég er viss um að okkur tekst að upplifa þessa velgengni á ný á næstu árum," sagði Giggs. Hann henti tveimur táningum inn í byrjunarliðið og annar þeirra, hinn 18 ára gamli James Wilson skoraði tvö fyrstu mörk liðsins í sínum fyrsta leik í búningi United.

„Ég vil bara óska þess að þið haldið áfram að styðja við bakið á okkur og í kvöld fengið þið smá sýn inn í framtíðina. Við spilum alltaf flottan fótbolta og ef þið haldið áfram að styðja okkur þá koma góðu tímarnir fljótt aftur," sagði Giggs.

Giggs passaði sig á því að tala ekkert um hvort þetta hafi verið síðasti leikurinn hans fyrir United eða hvort að hann starfi áfram fyrir félagið. Það bendir þó margt til þess að ferli sigursælasta leikmanns United sé nú á enda.



Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Giggs skipti sjálfum sér inn á völlinn - myndband

Ryan Giggs, starfandi knattspyrnustjóri Manchester United, lék væntanlega sinn síðasta leik fyrir félagið í kvöld þegar hann kom inn á sem varamaður í síðasta heimaleik tímabilsins á móti Hull í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×