Enski boltinn

Átján ára nýliði með tvö mörk í sigri Manchester United | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United vann 3-1 sigur á Hull City á Old Trafford í kvöld í síðasta heimaleik liðsins í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og mögulega 963. og síðasta leik Ryan Giggs fyrir félagið.

Ryan Giggs, starfandi knattspyrnustjóri Manchester United frá því að David Moyes var rekinn, setti sjálfan sig inn á tuttugu mínútum fyrir leikslok en Giggs kom þá inn á fyrir annan af tveimur nýliðum sem hann gaf tækifærið í þessum leik.

Giggs kom inn á fyrir Tom Lawrence á 70. mínútu en hinn átján ára gamli James Wilson stal sviðsljósinu í sinum fyrsta leik með aðalliði Manchester United. Wilson skoraði tvö fyrstu mörk United, eitt í hvorum hálfleik, en Giggs átti síðan stóran þátt í þriðja markinu sem Robin Van Persie skoraði.

Marouane Fellaini átti þátt í báðum mörkum James Wilson, það fyrra kom á 31. mínútu eftir að Fellaini skallaði aukaspyrnu Adnan Januzaj fyrir fætur nýliðans en það síðara skoraði Wilson á 61. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Fellaini.

Matty Fryatt minnkaði muninn í 2-1 tveimur mínútum eftir mark Wilson en nýliðinn fékk ekki tækifæri til að fullkomna þrennuna því hann fór af velli fyrir Robin Van Persie á 64. mínútu.

Robin Van Persie skoraði þriðja markið á 86. mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Ryan Giggs en Van Persie fékk tvær tilraunir til að senda boltann í markið. Ryan Giggs sýndi nokkur góð tilþrif og átti einnig gott skot úr aukaspyrnu í uppbótartíma sem var varið í horn.




Tengdar fréttir

Giggs skipti sjálfum sér inn á völlinn - myndband

Ryan Giggs, starfandi knattspyrnustjóri Manchester United, lék væntanlega sinn síðasta leik fyrir félagið í kvöld þegar hann kom inn á sem varamaður í síðasta heimaleik tímabilsins á móti Hull í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×