Enski boltinn

Bruce: Ég skal taka Giggs á frjálsri sölu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ryan Giggs stýrir United gegn Hull á heimavelli í kvöld.
Ryan Giggs stýrir United gegn Hull á heimavelli í kvöld. Vísir/Getty
Steve Bruce, knattspyrnustjóri Hull og fyrrverandi Englandsmeistari með Manchester United, myndi fagna því að fá hinn fertuga RyanGiggs til liðsins sem leikmann en liðin mætast í úrvalsdeildinni í kvöld.

Búist er við því að Louis van Gaal verði kynntur til sögunnar sem næsti stjóri Manchester United á næstunni og þá er óvíst hvað verður um starfslið Manchester United en Ryan Giggs er í þjálfaraliðinu og stýrir liðinu til bráðabirgðar.

„Hann má koma hingað og enda ferilinn á KC-vellinum í Evrópudeildinni. Ef hann verður laus á frjálsri sölu, þá tek ég hann,“ grínaðist Bruce á blaðamannafundi fyrir leik liðanna í gær.

Giggs stýrir Manchester United í síðasta sinn sem bráðabirgðastjóri á heimavelli í kvöld þegar liðið mætir Hull og svo er spurning hver framtíð hans verður þegar Hollendingurinn tekur við.

Bruce telur hann alltaf eiga framtíð fyrir sér á Old Trafford enda goðsögn í lifanda lífi þar á bæ.

„Það er erfitt að segja til um hvað verður. Van Gaal hefur eflaust sínar skoðanir en Giggs mun alltaf eiga samastað á Old Trafford. Ég er alveg viss um það, hann er búinn að vera frábær fyrir félagið.“

„Þeir munu finna eitthvað fyrir hann. Ég held að Giggs fari ekkert. Það verður komið almennilega fram við hann, um það er ég viss,“ segir Steve Bruce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×