Innlent

Lögbannskrafa tekin fyrir í héraðsdómi á fimmtudaginn

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Málsmeðferð vegna lögbannskörfu ríkissins á gjaldtöku á Geysissvæðinu hefst í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudaginn. Lögmaður ríkisins segir að niðurstaða í málinu muni liggja fyrir innan skamms tíma.

„Það sem gerist í raun er að málið verður flutt fyrir héraðsdómi á fimmtudaginn og tekið til dóms eftir það. Dómarinn mun síðan kveða upp úrskurð í málinu innan skamms tíma,“ segir Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins. Ekki er hægt að segja nákvæmlega hve langan tíma dómurinn mun gefa sér til verksins.

„Það er ýmislegt í þessu sem ekki hefur reynt á áður, með sama hætti og þarna gerir. Auðvitað eru mörg atriði í þessu sem hefur reynt á í öðrum stöðum. En jú þetta er auðvitað óvenjulegt mál fyrir margra hluta sakir.“

Ef að lögbannskröfu ríkisins á gjaldtökuna verður hafnað segir Ívar að þá væri hægt að skjóta þeirri niðurstöðu til hæstaréttar. Það væri hægt á sama hvorn veginn málið fer. Þá þurfi einnig að fá úr því skorið hver réttindi aðila á svæðinu séu.

„Ef að lögbannskrafan verður staðfest þarf að höfða mál til þess að fá efnislega úr skorið um réttindi aðila á svæðinu. Það eru væntanlega næstu skref sama hvernig fer,“ segir Ívar.

Þá er einnig mögulegt að viðkomandi aðilar muni ná samkomulagi á endanum.

Sýslumaðurinn á Selfossi hafnaði lögbannskröfu ríkisins þann 17. mars, tveimur dögum eftir að gjaldtaka á svæðið hófst. Ríkið skaut þó málinu til Héraðsdóms Suðurlands.

Vísir/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×