Innlent

Krafan um takmarkanir á innflutningi dýra hefði fengið efnislega meðferð

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva

Mikill undirbúningur fór fram af hálfu Íslands á sviði landbúnaðarmála vegna aðildarumsóknarinnar og umtalsverð þekkingaruppbygging átti sér stað á flestum stigum stjórnsýslunnar en þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðastofnunarinnar um aðildarviðræðurnar við ESB.

Fram kemur að samningsafstaða hafi verið á lokastigum í janúar 2013, þegar ákveðið var að setja aðildarviðræðurnar í „hægagang“ framyfir alþingiskosningar.

Viðræður hefðu að miklu leyti snúist um hversu rausnarlegan stuðning Ísland gæti fengið úr sjóðum ESB; hversu mikinn innlendan stuðning Ísland fengi heimild til að veita íslenskum landbúnaði og hversu mikinn framleiðslutengdan stuðning hefði mátt veita. Fordæmi hefðu að líkindum verið sótt í norðurslóðaákvæði aðildarsamnings Finnlands.

Fram kemur í skýrslunni að í samningsafstöðu vegna kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði sé  farið fram á tíu undanþágur, sérlausnir og aðlögunartímabil. Þar sem hlé var gert á viðræðum áður en viðbrögð ESB komu við samningsafstöðunni sé erfitt að meta líkur á að kröfur Íslands hefðu náðst í gegn. Fyrir Ísland virðist sem mikilvægustu kröfurnar hafi snúið að innflutningi lifandi dýra og innflutningi á fersku kjöti.

Skýrsluhöfundar telja líklegt að krafa Íslands um takmarkanir á innflutningi lifandi dýra hefði fengið efnislega meðferð og ef Ísland hefði getað sýnt fram á að hún væri byggð á vísindalegum grunni þá hefði verið fundin leið til að mæta kröfunni.

Þannig undanþága myndi þó verða endurskoðuð með reglulegu millibili með hliðsjón af mögulegum breytingum á hinu vísindalega mati.


Tengdar fréttir

Ísland áhrifalaust með EES-samningum

Pia Hanson, forstöðukona Alþjóðamálastofnunar, gagnrýndi EES-samninginn þegar hún kynnti skýrslu um Evrópumál. Hún sagði Ísland hafa innleitt tvo þriðju laga og reglna Evrópusambandsins nú þegar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.