Innlent

Hægt verður að nota séreignasparnað til kaupa á fyrstu íbúð

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Á morgun verða formlega kynnt frumvörp ríkisstjórnarinnar til lækkunar á höfuðstól húsnæðislána.
Á morgun verða formlega kynnt frumvörp ríkisstjórnarinnar til lækkunar á höfuðstól húsnæðislána. Vísir/GVA
Þeir sem eiga ekki fasteign geta notað allt að  eina og hálfa milljón króna af séreignasparnaði  sínum skattfrjálst til kaupa á fasteign á næstu fimm árum.

Aðrir sem eiga séreignasparnað geta notað hann til að greiða niður húsnæðislán sín, þetta var meðal þess sem kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Á ríkisstjórnarfundi voru frumvörp ríkisstjórnarinnar til leiðréttingar á höfuðstól húsnæðislána og séreignasparnað kynnt og samþykkt. 

Þau verða kynnt þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna á morgun og síðdegis verða frumvörpin svo kynnt blaðamönnum. 

Ef allt gengur að óskum verður opnað fyrir umsóknir um leiðréttingu á höfuðstól  15. maí og verður opið fyrir umsóknir í þrjá og hálfan mánuð. 

Það kemur í hlut Ríkisskattstjóra að halda utan um umsóknir en embættið mun opna sérstaka vefgátt þar sem fólk getur sótt um. 

 

Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir um 20 milljörðum króna í leiðréttinguna á húsnæðislánum.  Á fjórum árum er gert ráð fyrir að 150 milljarðar fari til lækkunar á  höfuðstól húsnæðislána. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×