Innlent

Bjarni Ben hittir Davíð reglulega á Hótel Holti

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarni var gestur Bubba sem fann það meðal annars út að Bjarni hittir Davíð reglulega á Hótel Holti.
Bjarni var gestur Bubba sem fann það meðal annars út að Bjarni hittir Davíð reglulega á Hótel Holti.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var gestur Bubba Morthens í þættinum Stál og hnífur sem var á dagskrá í gærkvöldi á Bylgjunni. Farið var um víðan völl en á einum stað í viðtalinu hafði Bubbi engar vöflur á og spurði Bjarna hreint út hvort hann væri að hitta Davíð Oddsson á Hótel Holt?

„Ég hitti mjög marga flokksmenn, þar á meðal Davíð Oddsson. Það kemur fyrir að við spjöllum saman.“

Á Hótel Holt?

„Jájá, við höfum stundum fengið okkur að borða þar í hádeginu. Það er fínt að borða þar, góður matur og gott næði.“

Bubbi spyr þarnæst út í hvað sé til í því að Davíð sé yfir og alltum kring í þessari umræðu um Sjálfstæðisflokkinn, að hann stjórni bak við tjöldin eða hvort þetta sé taktík frá pólitískum andstæðingum Bjarna; að þeir vilji grafa undan honum með að segja að Bjarni sé strengjabrúða Davíðs?

Er Davíð að anda ofan í hálsmálið á þér?

„Nei. Og það er ekkert til í því að Davíð eða einhverjir aðrir séu að stjórna á bak við tjöldin. Það er bara ekki þannig. Hins vegar er Davíð með sínar skoðanir, sem ritstjóri, og hann kemur þeim skoðunum vel á framfæri í gegnum skrif sín í Morgunblaðið, það er ekki nema eðlilegt að það móti aðeins umræðu um áherslur í þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni.“

Bjarni segir, spurður af Bubba sem gengur á formanninn, að forystan sú sem nú situr fái frið til að móta stefnuna. En, hann hlusti gjarnan á sjónarmið gamalla foringja flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×