Tónlist

Stórtónleikar í þágu náttúruverndar

Bjarki Ármannsson skrifar
Björk, Russell Crowe og Patti Smith er öllum annt um Ísland.
Björk, Russell Crowe og Patti Smith er öllum annt um Ísland. Vísir/Getty
Tónlistarkonurnar gríðarvinsælu Patti Smith og Lykke Li munu koma fram ásamt flóru íslenskra tónlistarmanna á tónleikunum Stopp! Gætum garðsins í Hörpu þann 18. mars.

Tónleikarnir verða haldnir í þágu íslenskrar náttúru en það eru Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd sem standa fyrir þeim. Allir listamenn munu gefa vinnu sína en ásamt þeim Smith og Li koma fram Björk, Retro Stefson, Of Monsters and Men, Samaris, Mammút og Highlands. 

Sama dag verður kvikmyndin Noah í leikstjórn Darren Aronofsky frumsýnd í Sambíói Egilshallar. Ókeypis verður á frumsýninguna í þágu verndunar íslenskrar náttúru, en myndin var tekin upp hér á landi í hittífyrra. 

Frá þessu var greint á blaðamannafundi í Hörpu í dag, en þar ávörpuðu Björk og Aronofsky blaðamenn í gegnum Skype. Björk gagnrýndi ríkisstjórn Íslands á fundinum og sagði hana vera með „úrelt gildi.“

Patti Smith þekkja flestir tónlistarunnendur en hún vann sér inn frægð á áttunda áratugnum með plötunni Horses og með smellinum Because the night sem hún samdi með rokkgoðinu Bruce Springsteen. Smith hefur þónokkrum sinnum heimsótt Ísland og haldið hér tónleika. Síðast var hún stödd hér á landi haustið 2012 og kom þá meðal annars óvænt fram með Russel Crowe, aðalleikara Noah, á Menningartónleikum X-977 við góðar undirtektir.

Lykke Li er sænsk poppsöngkona, helst þekkt fyrir smellinn I Follow Rivers sem gerði allt vitlaust á dansgólfum víða um heim árið 2011. 

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu fyrir tónleikana úr smiðju listamannsins Hugleiks Dagssonar sem rithöfundurinn og náttúruverndarsinninn Andri Snær Magnason deildi á Twitter fyrr í dag.


Tengdar fréttir

Stórleikstjóri styður Náttúruverndarsamtök Íslands

Ástæðan fyrir því að leikstjórinn ákvað að styðja við bakið á samtökunum er sú að hann vildi meðal annars vega upp á móti náttúruraski sem urður við upptökur á stórmyndinni Noah hér á landi síðasta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×