Innlent

„Hún beitir þarna skoðanakúgunum“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Auðvitað undrast ég ummæli formanns fjárlaganefndar. Hún beitir þarna kúgunum, skoðanakúgunum og er að reyna að hafa áhrif á hvaða fyrirtæki auglýsi hjá hvaða fjölmiðlum. Mér finnst þetta algjörlega ótækt,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins.

Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, birti í gær stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni þar sem hún hvatti fyrirtækið EGF húðvörur til þess að sniðganga auglýsingakaup af Kvennablaðinu. Þá tengir hún umfjöllun vefmiðilsins um sig, sem henni mislíkar.

Þá segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands það fráleitt að hún skuli reyna að hafa áhrif á skoðanaskipti í landinu með þessum hætti.

„Mér finnst það fráleitt að beita svona aðferðum og fólk á að geta látið skoðanir sínar og viðhorf í ljós án þess að það sé verið að vega að fjölmiðlum eða þeim vettvangi þar sem þessar skoðanir koma fram.“

Hjálmar segir einnig að kjörnir fulltrúar verði að þola skoðanir annarra og sé það grundvallaratriði í þjóðfélagi þar sem tjáningafrelsi ríkir.

Blaðamannafélagið mun funda vegna málsins í dag klukkan fimm og hefur Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pítata, boðað að málið verði tekið upp á þingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×