Innlent

Heilbrigðisráðherra ræðir um fíkniefnamál

Jakob Bjarnar skrifar
Hátt hlutfall fanga situr inni vegna fíkniefnamála.
Hátt hlutfall fanga situr inni vegna fíkniefnamála.
Heimdallur blæs til fundar í kvöld en þar á að ræða um fíkniefni og þá stefnu sem íslensk stjórnvöld reka í þeim efnum. Yfirskrift fundarins, sem hefst klukkan átta, er: „Er refsistefnan gegn fíkniefnum að virka?“ Að sögn hefur félagið lengi talað fyrir frjálslyndari og mannúðlegri stefnu gagnvart fíkniefnanotendum.

„Við vonum að fundurinn í kvöld verði fróðlegt innlegg inn þá umræðu, en á fundinum verður lagt mat á hvort refsistefnan hafi náð tilætluðum árangri. Við búumst við fjörugum fundi í kvöld, en framsögumenn eru Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur og Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri,” segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar.

Afstaða Heimdellinga liggur fyrir: Þau þar telja refsistefnu þá sem rekin hefur verið í fíkniefnamálum hafa beðið skipbrot. Á sama tíma og refsingar í fíkniefnamálum hafa verið þyngdar hefur neysla á fíkniefnum aukist. Þá hafa samfélagsleg vandamál tengd fíkniefneyslu aukist, svo sem glæpir og heilbrigðisvandamál. Góður árangur hefur hins vegar náðst í því að minnka drykkju og reykingar unglinga án þess að grípa hafi þurft til boða og banna.

Vísir hefur að undanförnu fjallað um þennan málaflokk og má meðal annars benda á ítarlegt viðtal við Pétur Þorsteinsson formann Snarrótar, sem lengi hefur talað fyrir lögleiðingu með það fyrir augum að afglæpavæða fíkniefnaneytendur. Von er á sérfræðingum til landsins til að fara í saumana á málinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.