Innlent

Hefur verið lagt hald á óvenju margar tegundir fíkniefna

Gissur Sigurðsson skrifar
Vísir/pjetur
Lögreglumenn stóðu fíkniefnasala að verki í Kópavogi á níunda tímanum í gærkvöldi þar sem hann var að selja 15 ára unglingi fíkniefni. Óvenju mikið framboð er um þessar mundir og fjölbreytnin meiri en venjulega, að sögn lögreglu.

Mál unglingsins var afgreitt með aðkomu foreldis og tilkynnt til barnaverndaryfirvalda. Sölumaðurinn er einnig grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og ökuréttindi hans voru út runnin.

Um 50 fíkniefnamál hafa komið til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga í sérstöku átaki, sem hún stóð fyrir, eftir að fregnir bárust fyrir helgi um að mikið af fíkniefnum væri í umferð.

Flest málin komu upp á tónlistarhátíð í Hörpunni um helgina. Að sögn Karls Steinars Valssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, hefur verið lagt hald á óvenju margar tegundir fíkniefna upp á síðkastið.

Til dæmis amfetamín, kókaín, e-töflur og MDMA, svo eitthvað sé nefnt og svo er alltaf mikið af innlendu kannabisefni í umferð. 

Í þessari aðgerð voru nokkrir fíkniefnasalar handteknir en engin reyndist hafa mjög mikið af efnum í fórum sínum. Engin var úrskurðaður í gæsluvarðhald, en  mál þeirra verða send ákæruvaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×