Innlent

Erlent par í sjálfheldu í Hafnarfjalli

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Parið segist sjá til Borgarness þaðan sem þau bíða þess að vera bjargað úr sjálfheldu.
Parið segist sjá til Borgarness þaðan sem þau bíða þess að vera bjargað úr sjálfheldu. Vísir/Vilhelm
Erlent par er nú í sjálfheldu á Hafnarfjallinu. Björgunarsveitir í Borgarfirði og af Akranesi vinna nú að því að finna nákvæma staðsetningu þeirra en svæðið sem um ræðir er ansi vítt að sögn Guðna Haraldssonar, sem stýrir aðgerðum á svæðinu. „Þau komast hvorki upp né niður,“ segir Guðni. „Það amar ekkert að þeim, þau eru bara hrædd.“ Parið sér til Borgarness þaðan sem þau bíða þess að vera bjargað úr sjálfheldunni. 

Björgunarsveitirnar hafa náð símasambandi við parið og beita nú GPS-tækni til þess að ná nákvæmri staðsetningu. Gönguhópar frá sveitunum og sérhæfðir leitartæknisérfræðingar hafa lagt af stað upp fjallið en úr mörgum gönguleiðum er um að velja. „Ferðamenn eiga það til að ruglast á gönguleið og rolluslóða,“ útskýrir Guðni en þær síðarnefndu segir hann ekki kortlagðar.

Þetta er ekki eina tilfelli dagsins þar sem manneskja lendir í sjálfheldu en maður einn lenti í hinu sama fyrir ofan tjaldsvæði í Norðurfirði. Björgunarsveitir hófu línuvinnu til þess að sækja þann mann rétt fyrir klukkan fimm. Sá er vel haldinn og bíður björgunar í ágætis veðri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×